spot_img
HomeFréttirHelgi: Vorum svakalega lélegir í 32 mínútur

Helgi: Vorum svakalega lélegir í 32 mínútur

KR stal sigri í Keflavík í kvöld. Röndóttir þurftu bara átta mínútur til þess en þeir hrukku í gang að frumkvæði Kristófers Acox og Helgi Magnússon spilandi þjálfari liðsins mundaði fallbyssuna og sökkti nokkrum risavöxnum þristum þegar KR vann tveggja stiga sigur á Keflavík.
 
,,Við vorum svakalega lélegir í 32 mínútur, Kristófer Acox kom inn og breytti gangi leiksins. Það vantaði eitthvað hjá okkur, einhvern kraft og hann kom einmitt inn með það. Sóknarfráköst og svo kláraði hann vel í kringum körfuna og það smitaði út frá sér, þetta var hans fyrsti leikur í vetur en hann hefur lítið náð að æfa með okkur en það var kraftur í honum í dag,” sagði Helgi ánægður með sinn mann sem er að stíga upp úr meiðslum.
 
Af hverju voru KR-ingar svona lengi í gang?
,,Ég vildi að ég gæti svarað því, ég veit ekki hvað þetta var. Það var engin leikgleði í þessu og í staðinn fyrir að láta Keflavík aðlagast okkur þá vorum við bara að bíða eftir því hvað þeir myndu gera. Það vantaði allan kraft og Lewis og Graion reyndust okkur erfiðir á löngum köflum.”
 
Sigurinn var ekki fallegur en það þarf að vinna ljótu leikina segir Helgi.
,,Það sýnir einmitt smá karakter og hann er alveg til staðar hjá okkur, getan og krafturinn og við þurfum að setja þetta saman í heilan leik og því get ég sagt að við eigum fullt inni. Við vorum bara skelfilegir fyrir utan síðustu átta mínúturnar svo hvað það varðar er tilfinningin góð að vinna leikinn.”
 
KR er enn án Emils Þórs Jóhannssonar sem hefur verið að glíma við meiðsli, styttist í hann?
,,Emil er nýbyrjaður að æfa og við tökum þessu rólega með hann en hann dettur í gang bráðlega,” sagði Helgi sem mætir næst Snæfell í Domino´s deildinni og hittir þar fyrir gamla lærimeistarann sinn Inga Þór Steinþórsson.
 
,,Við skulum sjá til hvort hann sé búinn að ,,cirka” mig út,” svaraði Helgi aðspurður um hvort Ingi þekkti ekki öll hans brögð. ,,Við lentum í hörku leik gegn þeim í Hólminum en teljum okkur geta gert töluvert betur en við sýndum í það skiptið.”
Fréttir
- Auglýsing -