„Það er erfitt að fylla Síkið enda tekur það 2000 manns en við höfum verið að gera vel og þó það hafi farið hljótt í fjölmiðlum þá eigum við bestu stuðningsmannasveitina í vetur. Allir alltaf málaðir, trommur, menn í búningum og fjöldi söngva jafnvel um þá sem eru á moppunni og dómarana líka. Það besta við okkar stuðningsmenn er að þeir hafa tekið neikvæðnina úr stúkunni hér heima,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson eða hr. eitthundrað prósent eftir síðasta leik þar sem kappinn klikkaði ekki úr skoti. Framundan hjá Stólunum er leikur þrjú gegn Þór næsta föstudag en Karfan.is náði í skottið á Helga og fékk smá innsýn í stemmninguna í Skagafirði.
„Ef það er einhver í stúkunni að góla á dómarana þá skellir stuðningssveitin okkar bara í söng og þetta skiptir svo miklu máli, við vitum að neikvæðnin smitar og þá getur einbeitingin farið svo við erum mjög stoltir af stuðningssveitinni,“ sagið Helgi og það er ekki bara stuðningssveitin sem er að gera gott mót. Tindastóll TV vílar ekki fyrir sér langferðalögin rétt eins og leikmennirnir.
„Tindastóll TV er snilld, Viggó pabbi hans Helga Rafns er flottur á myndavélinni en Tindastóll TV er eins og hljómsveit Geirmundar. Ein fyrir sunnan og ein fyrir norðan, þannig er það eiginlega þegar Tindastóll TV fer á flakkið, búnaðurinn fer af stað en við eigum útsendara víða til að standa að útsendingunni og svo er Viggó alltaf með – eins og Geirmundur í músíkinni,“ sagði Helgi léttur á bragðið.
„Ég hef verið í mörgum liðum, auðvitað Tindastól, í High School, College og danska boltanum en þetta lið hérna sem við erum með núna hefur besta jafnvægið. Bæði innan og utan vallar. Við erum með þessa þrjá í Flake, Lewis og Dempsey og svo nokkra 30+ fjölskyldumenn sem sumir hverjir eru jafnvel í tveimur störfum og svo kemur Ingvi sem er 21 árs og elstur guttanna og tveir strákar utan hóps sem gætu jafnvel smokrað sér inn,“ sagði Helgi og hann gerir ekki lítið úr þætti þjálfarans, Spánverjans Israel Martin.
„Við erum bara með þjálfara sem skilur þetta, skilur aðstæður og aðstöðu liðsins og var fljótur að átta sig á þessum hlutum. Israel hefur gríðarlega góða aðlögunarhæfni og hann stuðar engann, það sjá hann allir sem jákvæðan einstakling. Við vorum t.d. allir mjög ánægðir með undirbúningstímablið en þá tókum við ekki eitt einasta línuhlaup, fyrstu tveir mánuðurnir voru samt erfitðir fyrir okkur eldri. Hér áður var maður nokkuð með á hreinu hvernig pre-season yrði en hann braut þetta flott upp, það var tekið vel á því án línuhlaupa,“ sagði Helgi sem segir þjálfarann afbragðs góðan njósnara.
„Það sem hann kemur með sér er eitthvað sem maður hefur lítið sem ekkert séð áður, þessi faglega nálgun í „scouting“ því hann skoðar ekki bara síðasta leik hjá andstæðingunum heldur þrjá eða fleiri síðustu leiki. Þetta er hans grunnur í þjálfuninni og þetta var hann mikið að gera í t.d. LEB Gold og ACB deildinni. Þetta er ómetanleg vinna þessi greining á lykilþáttum og gerir allt vinnuumhverfið betra. Maður finnur vel fyrir því og græðir á því þegar maður vinnur með fagmönnum.“
Getum alveg fyllt Síkið!
„Það er eitthvað af fólki sem situr heima og horfir á Tindastóll TV og við töpum pínu á því en í heildina eru fleiri að fylgjast með. Það voru fleiri en 500 ip-tölur að fylgjast með leiknum úti í Þorlákshöfn en við getum samt alveg fyllt Síkið,“ sagði Helgi. Það ætti þá ekki að vera mikið mál að hafa allsherjar útkall á Króknum fyrir föstudaginn. Ef það komast 2000 manns í Síkið og um 5200 manns búa í Skagafirði þá er þetta ekki flókin stærðfræði – drífa sig á völlinn gott fólk og fylla Síkið í fyrsta sinn þetta tímabilið!
Kiddi var súper skorari
Þeir sem hafa fylgst lengi með boltanum ættu að kannast við skotstílinn hjá Helga Frey. Hér í eina tíð hafði vélbyssa viðkomu í Skagafirði og bar sá skotmaður nafnið Kristinn Geir Friðriksson. Betur þekktur sem Kiddi Gun! Það þarf ekki fjörugt ímyndunarafl til að halda því fram að Helgi hafi séð Kidda Gun sleppa lausum nokkrum þristum í Skagafirði og þaðan farið að apa eftir honum skotstílinn.
„Maður sá Kidda spila og lærði helling af honum, hann þjálfaði mig einnig og ég spilaði líka aðeins með honum áður en ég fór út, hann var súper skorari! Ég veit ekki alveg hvort hann hafi náð 100% leik enda munurinn á okkur sá að ég tek ekkert rosalega mörg skot en nýtingin er ágæt en ég tek kannski um 6-7 skot í leik en er nokkuð viss um að Kiddi hafi aldrei tekið undir 10 skot í leik,“ sagði Helgi sem má að sögn þjálfarans skjóta meira.
„Ég fæ stundum á mig að ég sé að leita að sendingunni og eigi að skjóta meira sjálfur, Israel hvetur mig meira að segja til að skjóta en maður reynir að velja góðu skotin,“ sagði Helgi og fellur þá í smá mótsögn við sjálfan sig út af þessum svívirðilega „buzzer“ sem hann setti á Þór Þorlákshöfn í leik nr. 2 fyrir hálfleik. Það skot var ekki „góða skotið“ – heldur afar erfitt.
„Já þessi buzzer var svívirðilegur en samt nákvæmlega alveg eins og kallinn (Israel Martin) teiknaði þetta, ég fékk bara þetta sekúndubrot til að skjóta eftir að hafa beðið þolinmóður úti í horni.“
Leikur þrjú
Annað kvöld er þriðja viðureign Tindastóls og Þórs. Heimamenn í Síkinu þurfa bara einn sigur til að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit.
„Allir þessir Þórs-leikir hafa verið erfiðir, enginn auðveldur. Leikur þrjú verður eins og að hafa sært dýr úti í horni og þeir vita að það er að duga eða drepast, við gerum okkur fulla grein fyrir því. Þórsarar munu mæta klárir en við mætum þeim óhærddir enda hefur okkar stærsti óvinur verið við sjálfir í vetur. Þegar við mætum ekki klárir. Ef við spilum okkar vörn og okkar leik þá farnast okkur oftast vel og með þessum stuðningi í Síkinu eru okkur allir vegir færir.“



