spot_img
HomeFréttirHelgi reif Stólana áfram og til sigurs

Helgi reif Stólana áfram og til sigurs

Tindastólsmenn eru komnir í undanúrslit Poweradebikarkeppninnar eftir fimm stiga sigur á Fjölni í Dalhúsum, 71-76. Helgi Rafn Viggósson tók á rás undir lok leiks og kom sínum mönnum á sporið í átt að sigri.

Fjölnir og Tindastóll höfðu það sameiginlega af að kreista út 12 stig á rúmum fimm fyrstu mínútum leiksins. Heimamenn náðu smávægilegri forystu en Tindastólsmenn tóku við sér undir lok leikhlutans og staðan 18-18 eftir fyrstu 10 mínúturnar. Við sáum pressu, svæðisvörn og sitthvað fleira á þessum tíu mínútum og skýrar línur voru lagðar, vörnin allsráðandi og bæði lið með bullandi áhuga á því að komast í undanúrslit bikarkeppninnar.

 
 
Ólafur Torfason átt flottan leik með Fjölni í kvöld og lét Tindastólsvörnina ansi oft finna vel fyrir sér eins og honum einum er lagið. Jafnt var áfram á öllum tölum en eitthvað hafa menn tjónkað við listamanninum á blokkinni því Darrell Flake sem gerði 19 stig í kvöld minnti heldur betur á sig í öðrum leikhluta. Flake komst þá inn í sendingu, brunaði upp völlinn og hamraði boltanum í körfuna…engu gleymt! Staðan í hálfleik var 35-36 Tindastól í vil, leikur varnarinnar enn í botni með tilheyrandi stirðleika á sóknarendunum.
 
Nokkur harka færðist í síðari hálfleikinn og menn skeyttu skapi um víðan völl en munurinn varð aldrei mikill. Ólafur Torfason var gestunum áfram erfiður og Emil Þór Jóhannsson kom Fjölni í 58-57 er hann æddi upp endalínuna og lagði boltann snyrtilega í körfuna um leið og þriðji leikhluti var á enda.
 
Í upphafi fjórða leikhluta munaði minnstu að upp úr syði. Gestirnir úr Síkinu gátu vart keypt körfu gegn sterkri vörn heimamanna og það var stutt í pirringinn. Sigmundur Már Herbertsson annar tveggja dómara leiksins gekk á milli manna og varnaði því smurðar yrðu hnefasamlokur. Eins voru ansi myndarleg orð látin falla sem hefðu jafnvel verið betur geymd í EM-stofunni.
 
Skömmu eftir „étt´ann sjálfur“ uppákomuna sáust einhver rosalegustu varnartilþrif tímabilsins þegar Daron Lee Sims varði troðslutilraun frá Antoine Proctor. Hér vildu allir Tindastólsmenn í húsinu fá villu en ekkert var dæmt og því óhætt að merkja þetta sem rosaleg tilþrif! Til að nudda salti í sár gestanna að svo komnu máli bættist einnig við tæknivilla á Bárð Eyþórsson þjálfara svo meðbyr heimamanna var orðinn töluverður.
 
Næstum fimm mínútur liðu í fjórða leikhluta áður en Tindastólsmenn náðu að skora og það gerði Proctor af vítalínunni. Með hverri sekúndunni sem við færðumst nær leikslokum óx Helga Rafni Viggóssyni ásmegin og um leið öllu Tindastólsliðinu og var Helgi í raun lykillinn að sigri Tindastóls. Helgi kom gestunum í 66-68 með villu og körfu að auki og svo þarf ekkert að tyggja það ofan í neinn að baráttan í varnarleiknum var að sjálfsögðu á sínum stað. Tindastóll komst í 69-73 og í tvígang brenndu heimamenn af teigskotum þegar rúmar 40 sekúndur lifðu leiks. Stóru skotin vildu einfaldlega ekki detta hjá Fjölni sem eru úr leik eftir 71-76 ósigur en Tindastólsmenn marsera áfram og inn í undanúrslit ásamt Grindvíkingum sem lögðu Njarðvík í kvöld.
 
 
Mynd/ [email protected] – Helgi Rafn átti öfluga spretti í kvöld og þá sérstaklega undir lok leiksins þegar allt var í járnum.
  
Fréttir
- Auglýsing -