Leikið var í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þar sem Íslendingaliðið og ríkjandi meistarar Sundsvall Dragons töpuðu gegn Helga Magnússyni og félögum í 08 Stockholm á útivelli. Lokatölur voru 75-74 08 Stockholm í vil.
Pavel Ermolinski átti síðasta skotið í leiknum fyrir Sundsvall og var það þriggja stiga skot sem geigaði og 08 Stockholm fagnaði því sigri. Helgi Magnússon átti góðan dag í liði 08 Stockholm og var hann stigahæstur með 16 stig og 7 fráköst. Hjá Sundsvall var Jakob Örn Sigurðarson með 22 stig, Hlynur Bæringsson gerði 8 stig og tók 11 fráköst og Pavel Ermolinski var með 11 stig og 5 fráköst.
Brynjar Þór Björnsson og Jamtland Basket lögðu LF Basket á heimavelli 96-84. Brynjar gerði 5 stig í leiknum og tók 4 fráköst. Þá tapaði Solna Vikings sínum öðrum leik í röð og nú gegn Södertalje Kings 84-71 á útivelli. Logi gerði 11 stig í leiknum og tók 4 fráköst.
Mynd/ Helgi Magnússon og 08 Stockholm höfðu sigur á Íslendingaliðinu Sundsvall í kvöld.