spot_img
HomeFréttirHelgi með gegn Keflavík annað kvöld?

Helgi með gegn Keflavík annað kvöld?

18:00
{mosimage}

(Helgi Jónas Guðfinnsson) 

Annað kvöld verður toppslagur þegar Grindavík og Keflavík mætast í nágrannarimmu í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Von er á því að bakvörðurinn snjalli Helgi Jónas Guðfinnsson muni snúa aftur í hóp Grindavíkur en hann hefur að undanförnu æft með gulum. Helgi var í bikarmeistaraliði Grindavíkur leiktíðina 2005-2006 þegar Grindavík lagði Keflavík í höllinni. Sjálfur segist leikmaðurinn vera í ágætis formi. Frá þessu er greint á www.vf.is  

,,Ég er ekki 100% viss á því að ég verði í búning á morgun en mæti galvaskur ef ég verð valinn í liðið,” sagði Helgi Jónas í samtali við Víkurfréttir en hann starfar sem einkaþjálfari í Grindavík. Ég hef lítið snert körfubolta síðan við urðum bikarmeistarar en var svo að æfa með liðinu um jólin og það var rosalega gaman. Það er kominn síðasti séns hjá manni til að gera þetta aftur,” sagði Helgi sem vonast til að geta hjálpað Grindavík í baráttunni. Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur hefur mikla trú á Helga og segir hann breikka hóp Grindavíkur til mikilla muna. 

,,Hann hefur verið að æfa með okkur upp á síðkastið og ákvað fyrir skömmu að gera þetta af fullum krafti með okkur. Helgi er enn kornungur og í toppformi líkamlega en þegar hann kemst í leikform er hann klárlega enn á meðal bestu leikmanna landsins. Með Helga innanborðs erum við orðnir ansi þéttir í bakvarðastöðunum,” sagði Friðrik við Víkurfréttir og bætti við að nú væri kominn tími á að vinna eina nágrannarimmu. 

Grindavík lá gegn Kefalvík í upphafi tímabils og nú í síðustu umferð máttu þeir þola ósigur gegn Njarðvík í Röstinni. Friðrik segir það því orðið tímabært að vinna þessa mikilvægu leiki. ,,Við vorum ekki sáttir við seinni hálfleik gegn Njarðvík og vorum bara andlausir. Ef það verður svoleiðis gegn Keflavík á morgun þá töpum við leiknum. Njarðvík hafði einfaldlega viljann til að vinna síðari hálfleik,” sagði Friðrik og sagði toppslagina og nágrannarimmurnar vera þá leiki sem Grindavík verður að vinna ef liðið ætlar sér einhverja hluti á þessari leiktíð þar sem þeir séu nú dottnir út úr bikarkeppninni. 

Grindavík tekur á móti Keflavík annað kvöld í Röstinni í Grindavík og hefst leikur liðanna kl. 19:15. Keflavík er eina ósigraða liðið í deildinni en Grindavík hefur 14 stig í 4. sæti deildarinnar.  

Frétt og mynd af vef Víkurfrétta, www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -