Tindastólsmaðurinn Helgi Freyr Margeirsson hefur hætt körfuknattleiksiðkun eftir 22. ára feril. Þetta tilkynnti körfuknattleiksdeild Tindastóls í gær.
Í tilkynningu Tindastóls segir:
„Helgi er fæddur á hinu ágæta ári 1982 og spilaði upp yngri flokka Tindastóls, ásamt því að vera fyrirliði síns árgangs í yngri landsliðum Íslands. Helgi spilar sinn fyrsta leik í meistaraflokki aðeins 14 ára gamall tímabilið 1996-1997 og spilaði hann með Tindastól þangað til hann fór til Bandaríkjanna til að mennta sig árið 2002. Hann lék með Jefferson Chargers í High School (2000-2001) og háskólanám við Birmingham-Southern College í Bandaríkjunum (2002-2005) þar sem hann var á fullum skólastyrk, spilaði með Þór á Akureyri (2005-2006) og Randers Cimbria (2006-2009) í Danmörku áður en hann kom aftur heim í fjörðinn fagra tímabilið 2009 – 2010.
Helgi hefur verið lykil-leikmaður í uppgangi Tindastóls síðan hann kom aftur bæði innan vallar sem utan. Frábær liðsfélagi sem var til í aðstoða liðið eða liðsfélaga á hvaða hátt sem þurfti. Það sýndi sig mjög vel til dæmis þegar ungt og óreynt lið Tindastóls fór alla leið í úrslit árið 2015. En eftir 22 ára feril sem meistaraflokksleikmaður eru skórnir komnir upp í hillu.“
Körfuknattleiksdeild Tindastóls vill koma miklum þökkum til Helga Freys og hans fjölskyldu fyrir hans framlag til Tindastóls í gegnum þessi 22 ár, en án heimamanna sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram fyrir klúbbinn er ekki hægt að ná þeim árangri sem Tindastólsliði hefur náð síðustu ár.“
Karfan þakkar Helga fyrir ófáar ævintýralegar þriggja stiga körfurnar í gegnum tíðina og tímann á gólfinu. Örfáar myndir frá ferli Helga úr myndasafni Körfunnar má finna hér að neðan.











