spot_img
HomeFréttirHelgi: Ekki spenntur fyrir áframhaldi hjá Boncourt

Helgi: Ekki spenntur fyrir áframhaldi hjá Boncourt

11:51 

{mosimage}

 

(Helgi í leik með íslenska landsliðinu) 

 

Landsliðsmaðurinn Helgi Magnússon hefur lokið samningi sínum við svissneska liðið Boncourt og sagði í samtali við Karfan.is að hann væri ekkert allt of spenntur fyrir því að gera nýjan samning við félagið. Helgi segir að nú sé umboðsmaður hans að vinna í því að koma honum fyrir hjá öðru liði en umboðsmaðurin og Helgi munu líklega ræða málin betur sín á milli síðar í þessari viku.

„Þjálfarinn og góðir leikmenn hafa nú farið frá Boncourt sem lenti í fjárhagskröggum um miðja síðustu leiktíð og félagið var næstum því farið á hausinn,” sagði Helgi en hann lenti þó sjálfur ekki í neinum vandræðum með sitt hjá félaginu. „Ég er ekkert voðalega spenntur fyrir því að vera áfram hjá Boncourt svo það eru þreifingar byrjaðar við að finna lið,” sagði Helgi en hvar vill hann helst spila? 

„Ég hefði t.d. áhuga á því að leika í Frakklandi eða bara þar sem er spilaður góður bolti og flott menning,” sagði Helgi sem hefur nýverið hafið æfingar að nýju eftir smá frí frá boltanum. „Ég er aðeins búinn að vera að koma mér í gang aftur eftir Smáþjóðaleikana og tók t.d. þátt í því að rífa parketið í DHL-Höllinni á dögunum. Það var gaman að kveðja dúkinn því ég kunni illa við hann,” sagði Helgi. 

Það er því enn óljóst hvað verður hjá Helga á næstu leiktíð en eins og áður greinir þá stendur til að hann fari betur yfir sín mál með umboðsmanni sínum á næstu dögum.

 

Mynd: Gunnar Freyr Steinsson

Fréttir
- Auglýsing -