Staðan er jöfn, 1-1, í einvígi Norrköping og Solna í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar en þriðji leikuri liðanna fer fram á heimavelli Solna í kvöld. Karfan.is ræddi við Helga Má Magnússon leikmann Solna um einvígið sem sagði að allt annað hefði verið að sjá til Solna liðsins í öðrum undanúrslitaleiknum.
,,Fyrsti leikurinn var jafn framan af en í 3.leikhluta fórum við að tapa óþarflega mikið af boltum og taka léleg skot, það boðar aldrei gott. Þeir náðu um 10 stiga forskoti sem við náðum einhvern veginn aldrei að ógna almennilega. Svo undir lok leiksins þá juku þeir muninn í einhver 20 stig þegar við vorum að pressa og taka áhættur til að eiga einhvern möguleika á sigri. Þannig 24 stiga tap gefur kannski ekki rétta mynd af leiknum. Manni fannst eftir leikinn að við hefðum spilað okkur út úr leiknum í 3. leikhluta og með smá skynsemi hefði þetta líklega verið jafn leikur fram á loka mínutuna. Við töpuðum t.d. 9 boltum í fyrstu 17 sóknum seinni hálfleiks sem er alltof mikið gegn jafn sterku liði og Norrköping,“ sagði Helgi en allt annað Solnalið mætti til leiks í annarri viðureigninni.
,,Það var allt annað að sjá til okkar í leik tvö. Við komumst mest 24 stigum yfir í seinni hálfleik og vorum að spila flottann bolta, en þá duttum við í þá gryfju að ætla að verja forskotið í stað þess að halda áfram því sem var að virka og það kann aldrei góðri lukku að stýra. Norrköping jafnaði leikinn þegar um 2 mín voru eftir en sem betur fer sýndum við styrk okkar undir lokin og kláruðum þetta á vítalínunni og með flottri vörn,“ sagði Helgi og kvaðst ágætlega ánægður með eigin frammistöðu undanfarið.
,, Mitt hlutverk er að koma inn af bekknum með kraft og læti og setja niður þau skot sem bjóðast í sókninni og mér finnst ég vera að sinna því hlutverki ágætlega. Auðvitað tel ég mig geta spilað betur en á meðan við vinnum leikinn er ég sáttur.“
Solna mætir Norrköping á útivelli í kvöld í þriðja undanúrslitaleik liðanna og verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni tölfræðilýsingu á heimasíðu sænska körfuknattleikssambandsins.
Leikur 1: Norrköping 86-62 Solna
Leikur 2: Solna 85-76 Norrköping
Leikur 2: Solna 85-76 Norrköping
Leikur 3: Í kvöld!



