Það þykir vart fréttaefni lengur þegar reynsluboltar taka fram skóna og gleðja okkur með tilþrifum sínum á parketinu. Það er þó fyrirhafnarinnar virði að segja frá því að hin margreynda Helga Þorvaldsdóttir hefur reimað á sig skóna að nýju.
Reynsluboltinn Helga Þorvaldsdóttir gekk til liðs við Stjörnuna ekki alls fyrir löngu og lék með Garðbæingum gegn Fjölni í gærkvöldi. Gífurleg leikreynsla Helgu er klárlega tískuvara sem nýtist í harðri baráttu 1. deildar kvenna og ljóst að hún hefur engu gleymt. Helga skoraði 9 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á rúmum 24 mínútum gegn Fjölni í gærkvöldi og átti vænan þátt í öruggum sigri Stjörnunnar, 87-66.
Sævaldur Bjarnason, þjálfari 1. deildarliðs Stjörnunnar er að vonum ánægður með að fá reynslubolta eins og Helgu til liðs við félagið. “Það er frábært að hafa Helgu með okkur í líðinu. Hún er sterkur karakter og miðlar af þekkingu sinni til hinna stelpnanna í liðinu. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hana á parketinu aftur.”