Helga Einarsdóttir getur ekki tapað nú þegar KR og Tindastóll mætast í úrslitum Domino´s-deildar karla. Skagafjarðarmærin er vissulega félagsbundin KR en eitthvað segir okkur að þú getir tekið stelpuna úr Skagafirði en ekki Skagafjörð úr stelpunni. Af þessu leiðir vísast ákveðin togstreita fyrir miðherjann öfluga sem var svo veðruð eftir oddaleik KR og Njarðvíkur að hún fékk hraðasekt í Hvalfjarðargöngum. Karfan.is ræddi við Helgu um leikinn í kvöld og sjálft úrslitaeinvígið.
„Planið er að vera bara á ritaraborðinu eða uppi í sal og horfa á leikinn í gegnum glerið,“ sagði Helga létt í bragði en hún var stödd í Skagafirði á leið í hesthúsin þegar Karfan.is náði tali af henni. „Það verða læti í kvöld enda eru Skagfirðingar að fara að fjölmenna í DHL-Höllina. Stuðningsmannasveitin mætir og fólk sameinar sig í bíla og svo er fjöldi af Skagfirðingum í borginni sem eiga eftir að fjölmenna,“ sagði Helga sem hefur mjög gaman af því að þessi tvö lið skuli vera að leika til úrslita.
„KR hefur reynsluna og liðið veit út í hvað það er að fara en þetta mun snúast svolítið um spennstig hjá Tindastól og hvernig þeir koma inn í leikinn í kvöld. Ég spái samt oddaleik í DHL-Höllinni í þessu einvígi, þjóðin hefur örugglega taugar í annan svoleiðis.“
Hvað með þá staðreynd fyrir kvöldið að KR sé að koma úr oddaleik síðasta föstudag en Tindastóll hefur náð hvíld frá 15. apríl?
„Eins og Helgi Magnússon sagði í einhverju viðtalinu þá hjálpar það bara KR að koma af krafti inn í seríuna, ég tel að þetta sé ekki neitt að skemma fyrir þeim enda menn búnir að æfa í sumar og allan veturinn og ef það er eitthvað þá nuddar Bjartmar þetta úr þeim,“ sagði Helga sem fylgdist með nokkrum æfingum hjá Tindastól um helgina – var hún ekki meðhöndluð sem njósnari?
„Nei nei, mér var ekki vísað út, menn voru vissulega eitthvað að djóka með þetta en það sem ég sá hjá þeim var að liðið var fullt tilhlökkunar og liðið á svo sannarlega skilið að vera á þeim stað sem þeir eru í dag.“
Hvað sjáum við í kvöld Helga?
„Það er ómögulegt að segja, eins og ég sagði þá skiptir spennustigið miklu hjá Tindastól og hvernig þeir koma inn í þetta. KR verða erfiðir ef allt smellur hjá þeim, mér finnst KR ekki hafa náð að spila nægilega mikið eins og þeir geta best en ef allir eru upp á sitt besta þá verður þetta erfitt fyrir Tindastól.“
Nú styttist í að Helga haldi suður til að koma á leikinn í kvöld. Við vonum að sú ferð verði ódýrari en ferðin norður þar sem Helga náðist á hraðamyndavél í Hvalfjarðargöngum enda miðherjinn „hátt uppi“ efitr oddaleik KR og Njarðvíkur.
„Þegar maður kemur úr Skagafirði þá er maður miklu afslappaðri svo það er ekki hætta á neinni sekt í dag. Ég brunaði strax norður eftir oddaleikinn og var hátt uppi,“ sagði Helga sem mun vafalítið fara sér hægt í Hvalfjarðargöngum síðar í dag.
KR-Tindastóll
Leikur 1 í úrslitum
19:15 í DHL-Höllinni í kvöld!



