Deildarmeistarar Hauka leika án Helenu Sverrisdóttur í kvöld þegar Snæfell og Haukar mætast í sínum öðrum leik í úrslitum Domino´s-deildar kvenna. Staðan í einvíginu er 1-0 Hauka í vil en viðureign kvöldsins fer fram í Stykkishólmi.
Helena meiddist í fyrsta leiknum en var búin að leggja hressilega til liðsins áður en hún varð að víkja af velli vegna meiðsla í kálfa.
„Hún mun halda áfram meðferð og vonandi næst að gera hana klára fyrir fimmtudaginn,“ sagði Ingvar Þór Guðjónsson þjálfari Haukaliðsins við Karfan.is rétt í þessu.
Hauka bíður því ærinn starfi í kvöld án Helenu en Hafnarfjarðarkonur töpuðu báðum deildarleikjunum sínum í Hólminum í deildarkeppninni.