spot_img
HomeFréttirHelena og Auður leiddu Hauka til sigurs í Grindavík

Helena og Auður leiddu Hauka til sigurs í Grindavík

Haukar gerðu í dag góða ferð til Grindavíkur í Domino´s-deild kvenna. Haukar héldu heim í Hafnarfjörð með tvö góð stig en Hafnfirðingar þurftu engu að síður smá tíma til að koma sér í gang. Lokatölur reyndust 59-78 Hauka í vil.

Báðar þær Petrúnella Skúladóttir og Helga Einarsdóttir voru mættar í búning í Grindavíkurliðinu í dag og létu strax til sín taka í fyrsta leikhluta en þær hafa verið mikið frá þetta tímabilið vegna höfuðmeiðsla sem þær hlutu snemma leiktíðar. 

Hafnfirðingar fóru vel af stað í Mustad-höllinni og komust í 7-13 þegar gular báðu um leikhlé. Heimakonur  komu sterkar til baka eftir þennan örfund og beittu fyrir sig Sigrúnu Ámundadóttur. Grindvíkingar lokuðu fyrsta leikhluta með 9-2 spretti og leiddu 16-15 að honum loknum. Grindvíkingar voru að stokka á milli svæðis- og maður á mann varnar og Haukar þurftu smá tíma í að lesa það. 

Í öðrum leikhluta snögghitnaði Sólrún Inga Gíslasdóttir og setti niður tvo þrista fyrir Hauka sem kom Hafnfirðingum á bragðið. Hafnfirðingar hertu einnig róðurinn í vörninni og komust í 27-34 og þannig stóðu leikar í hálfleik. 

Helena Sverrisdóttir var með 14 stig og 9 fráköst í hálfleik í liði Hauka en hjá Grindavík var Whitney Frazier með 9 stig og 3 fráköst. 

Skotnýting liðanna í hálfleik

Grindavík: Tveggja 30,3% – þriggja 12,% og víti 66,7%

Haukar: Tveggja 30% – þriggja 35,7% og víti 83,3% 

Þær Auður Íris Ólafsdóttir og Helena Sverrisdóttir tóku Hauka í fangið í þriðja leikhluta, Helena sem hafði gert 14 stig í fyrri hálfleik spýtti vel í lófana í þriðja leikhluta og Auður Íris lokaði leikhlutanum með flautuþrist. Reyndar að öllum líkindum tvistur og Grindvíkingar ekki sáttir en dómarar leiksins kölluðu þrist og þar við stóð, Hafnfirðingar leiddu 44-61 fyrir fjórða leikhluta og höfðu hægt og bítandi frá öðrum leikhluta verið að smokra sér við stýrið. 

Haukar hleyptu Grindvíkingum ekki nærri í fjórða leikhluta og lokatölur því 59-78 eins og áður greinir. Helena Sverrisdóttir fór mikinn í liði Hauka með 26 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar og þá átti Auður Íris Ólafsdóttir einn sinn besta leik á tímabilinu í Haukabúningnum með 15 stig og 3 stoðendingar. Hjá Grindavík var Whitney Frazier með 17 stig og 8 fráköst. 

Myndasafn 

Fréttir
- Auglýsing -