TCU mætti Utah skólanum í sannkölluðum maraþonslag í bandarísku háskóladeildinni í nótt þar sem TCU hafði nauman útisigur eftir fjórframlengdan leik. Helena Sverrisdóttir lék mest allra í liði TCU eða 58 mínútur í leiknum!
Helena gerði 21 stig í leiknum, tók 8 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, stal 2 boltum og varði eitt skot. 15 af 21 stigi Helenu kom í viðbótartíma í nótt. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 61-61 þar sem Emily Carter jafnaði fyrir TCU þegar um hálf mínúta var til leiksloka. Heimalið Utah jafnaði svo í 73-73 af vítalínunni þar sem Utah hefði getað tryggt sigurinn en þær hittu aðeins úr öðru vítinu og Helena náði frákastinu af vítinu sem fór forgörðum.
Framlengja varð því í annað sinn og aftur náðu Utah að jafna og nú í 80-80 þegar 4 sekúndur voru til leiksloka. Í þriðju framlengingunni virtust TCU hafa leikinn í höndum sér og leiddu 90-87 þegar tvær sekúndur voru til leiksloka. Kalee Whipple náði þá að smella niður þrist fyrir Utah og jafna metin í 90-90.
Í fjórðu framlengingunni var TCU nóg boðið og tóku snemma frumkvæðið og höfðu að lokum 105-96 sigur í maraþonslag.
Þá fögnuðu María Ben Erlingsdóttir og félagar í UTPA einnig sigri þegar Houston Baptist skólinn kom í heimsókn. Lokatölur voru 79-66 UTPA í vil. María var í byrjunarliðinu og skoraði 10 stig í leiknum ásamt því að taka 2 fráköst á þeim 27 mínútum sem hún lék í leiknum.



