Helena Sverrisdóttir hefur ritað nafn sitt á sögubækurnar í TCU háskólanum í Bandaríkjunum en í gær vann TCU sinn sjötta leik í röð þar sem Helena rauf 1000 stiga múrinn. TCU hafði nauman 78-74 heimasigur á Texas A&M Corpus Cristi skólanum þar sem Helena landaði myndarlegri þrennu.
Helena var venju samkvæmt í byrjunarliði TCU enda burðarás í liðinu og lék hún í 35 mínútur í leiknum. Helena var næststigahæst í liði TCU með 17 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Hreint út sagt mögnuð frammistaða sem var auk þess með 4 stolna bolta og 2 varin skot.
Fyrir leikinn vantaði Helenu aðeins 15 stig í sarpinn til þess að komast í 1000 stiga klúbbinn en hún gerði gott betur og skoraði 17 stig í leiknum og hefur því gert 1002 stig fyrir TCU. Þá var þetta aðeins í annað sinn sem leikmaður í kvennaliði TCU nær þrennu í leik fyrir skólann. Hin þrennan kom hjá Sandoru Irvin árið 2005 þegar hún gerði 20 stig, tók 18 fráköst og varði 16 skot.
Helena varð einnig aðeins ellefti leikmaður skólans til að komast yfir 1000 stiga múrinn og þá skipar hún einnig veglegan sess í stoðsendingunum með fleiri en 300 stoðsendingar. Helena er einnig eini leikmaður TCU skólans frá upphafi til þess að ná yfir 1000 stig, 500 fráköst og 300 stoðsendingar.



