spot_img
HomeFréttirHelena fór mikinn í sigri Íslands á Sviss

Helena fór mikinn í sigri Íslands á Sviss

21:41
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir átti stórleik í dag) 

Kvennalandslið Íslands fékk góða byrjun á Evrópukeppni sinni í B-deild í kvöld þegar liðið lagði Sviss að Ásvöllum í Hafnarfirði. Framan af tókst gestunum að hanga í pilsfaldi íslenska liðsins en Ísland seig hægt og bítandi fram úr og vann að lokum öruggan og verðskuldaðan 68-53 sigur. Helena Sverrisdóttir átti magnaðan dag í íslenska liðinu en hún gerði 25 stig í leiknum, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Flott byrjun hjá íslenska liðinu sem mætir sterku liði Hollands ytra þann 30. ágúst næstkomandi.  

Íslenska liðið kom vel stemmt til leiks en bæði lið voru nokkuð köld í skotum sínum framan af. Ísland tók snemma forystuna í leiknum en þegar líða tók á fyrsta leikhluta komust Svisslendingar nærri og staðan að leikhlutanum loknum var 18-16 Íslandi í vil. Bæði lið voru að fara nokkuð óvarlega með boltann í kvöld og mistök á báða bóga voru of algeng. 

{mosimage}

Gestirnir beittu bæði svæðisvörn og maður á mann vörn í kvöld og torvelduðu Íslandi leiðina upp að körfuni en þess í stað opnaðist vel fyrir skytturnar og það nýtti Kristrún Sigurjónsdóttir sér vel sem hitti úr öllum þremur þriggja stiga tilraunum sínum í fyrri hálfleik. Helena Sverrisdóttir rankaði heldur betur við sér þegar leið á annan leikhluta og gerði m.a. sex stig í röð fyrir Ísland. Staðan í leikhléi var 39-34 íslenska liðinu í vil og Helena komin með 12 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar í íslenska liðinu. Karen Twehues gerði 10 stig í fyrsta leikhluta en íslenska liðið náði að loka vel á hana í öðrum leikhluta og héldu henni stigalausri. 

Helena Sverrisdóttir fór áfram fyrir sterku liði Íslands í síðari hálfleik og oft fórnuðu gestirnir höndum yfir framgöngu hennar. Þá var íslenska vörnin glæsileg en gestirnir skoruðu ekki í þriðja leikhluta fyrr en eftir fjögurra mínútna leik. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 51-43 íslenska liðinu í vil og stemmningin Íslands megin og fátt sem benti til þess að gestirnir ættu sér viðreisnar von. 

{mosimage}

Gestirnir frá Sviss komust aldrei nærri þó þeim tækist nokkrum sinnum að jafna leikinn. Ísland leiddi allan tímann með Helenu í broddi fylkingar. Þá áttu þær Pálína Gunnlaugsdóttir, Signý Hermannsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir einnig góðan dag í íslenska liðinu.  

Helena lauk leik með 25 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar í dag en henni næst var Kristrún Sigurjónsdóttir með 14 stig. Í liði Sviss var Karen Twehues með 12 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Twehues var í strangri gæslu í síðari hálfleik og gerði þá aðeins tvö stig. 

Næsti leikur Íslands er gegn Hollandi eins og áður greinir. Leikurinn fer fram 30. ágúst en Hollendingar unnu í kvöld frækinn 81-83 útisigur á Slóveníu. 

Tölfræði leiksins má nálgast á heimasíðu FIBA Europe 

[email protected] 
Myndir:
[email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -