spot_img
HomeFréttirHelena: Bikarleikir eitt það skemmtilegasta sem maður upplifir

Helena: Bikarleikir eitt það skemmtilegasta sem maður upplifir

08:10
{mosimage}

(Helena Sverrisdóttir) 

Einhver mest spennandi bikarúrslitaleikur í kvennaflokki fór fram í Laugardalshöllinni á síðustu leiktíð þegar Haukar lögðu Keflavík í sannkölluðum bikarspennuleik. Lokatölur leiksins voru 78-77 Haukum í vil og réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu sekúndunni, svona rétt eins og þetta á að vera í bikarnum. Helena Sverrisdóttir sem farið hefur fyrir sterku liði Hauka síðustu ár er nú við nám og körfuknattleiksiðkun í Bandaríkjunum og hefur verið mikill sjónvarsviptir af henni í íslenska boltanum. 

Helena gerði 23 stig, tók 14 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í bikarúrslitaleiknum gegn Keflavík í fyrra. Við tókum púlsinn á Helenu og báðum hana m.a. að gefa okkur smá innsýn í þennan eftirminnilega leik. Helena nemur og leikur körfubolta við TCU Háskólann og ber bænum og skólanum góða söguna. 

Hvernig kanntu svo við þig í henni stóru Ameríku?
Bara alveg rosalega vel, þetta er alveg frábær aðstaða og skólaumhverfi sem ég er í hérna. Ég er mjög sátt með bæinn sem ég bý í, hann er ekki of stór og ekki of lítill, og svo er stutt í stórborgina Dallas. Þetta er bara æðislegt. 

Er mikill munur á körfuboltanum þarna og hér heima á Íslandi?
Já, mér finnst gífurlega mikill munur en á samt erfitt með að útskýra hann. T.d. eru allir leikmennirnir hér mun líkamlega sterkari, hraðari og með betri stökkkraft. Ég fór frá því að vera einn líkamlega sterkasti leikmaðurinn heima í að vera bara meðal sterkur leikmaður hér. En það er bara áskorun sem ég fæ að kljást við næstu árin. 

Hvað finnst þér um gengi Hauka það sem af er vetrinum?
Í byrjun var líklegast mjög erfitt fyrir Yngva og stelpurnar að koma saman, þetta var nánst nýtt lið, enda margar sem fóru og nýr þjálfari. En mér finnst þær hafa unnið sig mjög vel í gegnum þetta, og ég held að hægt og rólega séum við að verða með betra og betra lið. 

Haukar unnu allt sem hægt var að vinna í fyrra og þar með talinn var Lýsingarbikarinn. Leikurinn í Höllinni gegn Keflavík var frábær skemmtun fyrir áhorfendur. Hvernig upplifðir þú hann sem leikmaður?
Bikarleikir eru líklegast eitt það skemmtilegasta sem maður fær að upplifa sem leikmaður á Íslandi. Úrslitaleikirnir  fá mikla athygli í fjölmiðlum og oftast eru flestir áhorfendur á  þessum leikjum. Svona leikir eru eitthvað sem maður mun líklegast muna alla sína tíð. Leikurinn í fyrra var rosalegur, og ég man eftir körfunni sem Pálína skoraði, þegar hún komst ein upp völlinn og skoraði and1 sem nokkurn veginn tryggði sigurinn okkar. Þessi  leikur tók mikið á taugarnar og það var alveg frábær tilfinning að sigra. 

Hvernig líst þér á fyrstu umferðina í bikarnum í kvennaflokki? 
Þetta lítur nú ekki svo spennandi út að mínu mati, mikið af leikjum þar sem betri liðin mæta litlu liðunum, en það getur allt gerst þannig við sjáum bara til. 

Að lokum gangi þér í Bandaríkjunum og hverjir verða svo Íslandsmeistarar í kvennaflokki?
Er þetta virkilega spurning til mín? Haukar að sjálfsögðu:) 

[email protected]  

Mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -