Viktor Jónas Lúðvíksson mun halda vestur um haf fyrir og leika með Cats Academy skólanum á komandi tímabili.
Viktor Jónas er 19 ára og að upplagi úr Stjörnunni, en hann var hluti af liði þeirra er varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins nú í vor. Ásamt því að hafa leikið fyrir meistaraflokk þar hefur hann verið úti í Þýskalandi og var hann einnig með KFG í fyrstu deildinni á síðustu leiktíð.
Viktor Jónas hefur einnig verið lykilleikmaður í yngri landsliðum á síðustu árum, nú síðast með Íslandi í A deild Evrópumóts U20 þar sem hann skilaði 7 stigum, 7 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Ekki er langt síðan íslenskur leikmaður var hjá CATS, en þar var Friðrik Leó Curtis á síðustu leiktíð.



