spot_img
HomeFréttirHeld mikið upp á Vince Carter og Gerald Green

Held mikið upp á Vince Carter og Gerald Green

12:30
{mosimage}

(Troðslukóngur Íslands! Ólafur Ólafsson) 

Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson, sem verður átján ára á þessu ári, gerði sér lítið fyrir og vann troðslukeppnina á Stjörnudegi Körfuknattleikssambands Íslands um síðustu helgi og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna troðslukeppnina síðan Logi Gunnarsson vann árið 2001. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag og á www.visir.is  

„Það var mjög gaman að taka þátt í þessu og vinna. Ég var búinn að æfa eina troðsluna með bræðrum mínum sérstaklega, en hugmyndir að hinum troðslunum spann ég bara á staðnum," sagði Ólafur, sem tryggði sér sigur í keppninni með stórglæsilegri lokatroðslu.  

Ólafur fékk þá mann sér til aðstoðar sem stóð nokkrum metrum fyrir framan körfuna og Ólafur kom hlaupandi og stökk yfir hann og tróð með miklum tilþrifum. Ólafur játaði að áhorf á NBA-deildina hefði vissulega hjálpað til við hugmyndaflug í sambandi við troðslurnar.  

„Ég á mér svo sem ekkert uppáhaldslið í NBA deildinni en pabbi heldur upp á Boston og þeir er fínir. Ég held hins vegar mikið upp á troðara á borð við Vince Carter hjá New Jersey Nets og Gerald Green hjá Minnesota Timberwolves. Ég fékk einmitt hugmyndina að einni troðslunni eftir að hafa fylgst með Green þegar hann varð troðslumeistari NBA árið 2007. Ég hélt líka upp á Michael Jordan þegar ég var yngri," sagði Ólafur, sem hefur einnig náð að troða í leik með meistaraflokki Grindavíkur.  

„Já, ég náði að troða í bikarleik gegn Hrunamönnum og svo hef ég oft troðið með drengjaflokkum. Ætli ég hafi ekki verið fjórtán ára þegar ég gat troðið í fyrsta skipti," sagði Ólafur, sem kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu.  

Faðir Ólafs var liðtækur körfuboltamaður með Grindavík, systir hans lék einnig körfubolta með Grindavík og bræður hans, Þorleifur og Jóhann Þ., leika með honum í meistaraflokki Grindavíkur.  

„Ég er náttúrlega bara ungur ennþá en mér líst bara vel á framhaldið með Grindavík og bíð því rólegur eftir því að fá tækifæri með liðinu. Grindavík hefur spilað vel í vetur og deildin verður alltaf sterkari og sterkari. Það eru fleiri sterk lið og allir virðast geta unnið alla," segir Ólafur. 

www.visir.is

Mynd: Þorgils Jónsson – www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -