spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHeimavallarhefðin hélt á Akranesi

Heimavallarhefðin hélt á Akranesi

Skagamenn í ÍA tóku í kvöld á móti Hvergerðingum kenndum við Hamar.  Hlutskipti liðanna í deildinn fyrir leik voru ójöfn, ÍA í 9. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan Hamar sat í 1.-2. sæti deildarinnar með 34 stig.


Leikurinn í kvöld var þriðji og síðasti innbirðisleikur liðanna en liðin höfðu fyrr á tímabilinu unnið sinn leikinn hvort, ÍA heimaleik sinn í október og Hamar heimaleik sinn í desember.  Hamar gat með sigri í kvöld till sér einir á toppinn þar sem Álftanes á ekki leik fyrr en á mánudaginn.

Leikurinn var jafn og skemmtilegur frá fyrstu mínútu.  Liðin skiptust oft á því að leiða í leiknum en hvorugu liðinu tókst á nokkrum tíma í leiknum að leiða með tveggja stafa tölu en mesti munur á liðunum í leiknum var 9 stig.  ÍA leiddi eftir fyrsta leikhluta og sýndu strax að þeir ætluðu að gefa Hamri leik.  Hamarsmenn svöruðu fyrir sig seint í öðrum leikhluta og slitu sig frá heimamönnum á síðustu tveimur mínútum hálfleiksins með því að skora 6 síðustu stig hálfleiksins.  Hálfleikstölur 45-51.


Seinni hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri, jafnræði með liðunum en ÍA náði að saxa aðeins á forskotið en Hamar alltaf skrefi á undan og eftir að ÍA náði að jafna leikinn náði Hamar að setja síðustu körfu leikhlutans og leiða með minnsta mun, einu stig, fyrir loka leikhlutann.


Fjörið var mikið í fjórða leikhluta, liðin skiptust á að vera með forystu, sem var þó aldrei mikil og því við hæfi þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum að staðan væri jöfn 89-89.  Mikið gekk á þessar síðustu 90 sekúndur leiksins, Hamar kemst yfir en ÍA nær aftur forystunni með mikilvægri þriggja stiga körfu og fylgdu svo eftir með tveimur vítum sem bæði fóru ofan í.  Hamar komst svo á vítalínuna þegar þegar 7 sekúndur voru eftir og munurinn 3 stig.  Bæði víti Hamars fóru forgörðum, Hamar nær sóknar frákastinu og þriggja stiga skot til að jafna leikinn fer forgörðum og Hamar brýtur strax til að senda Skagamenn á vítalínun 3 stigum yfir og 3 sekúndur eftir.  Þá lætur einn leikmaður Hamars kappið bera sig ofurliði og ýtir tvívegis við leikmanni ÍA og rífur sig svo lausan frá öðrum dómara leiksins, óíþróttamannsleg villa dæmd og henni fylgdi svo brottrekstrarvilla sem þýddi að ÍA var að fara að taka 6 vítaskot og fá svo boltann aftur og úrslit leiksins þar með ráðin. Lokatölur ÍA 97 Hamar 91.

Í liði Hamars var Jose Medina Aldana allt í öllu, stigahæsti maður liðsins með 24 stig auk þess að gefa 11 stoðsendingar.  Einnig var frammistaða Ragnars Nathanaelssonar góð en hann skilaði 16 stigum og 18 fráköstum, þar af 7 sóknarfráköstum.  Brendan Howard var drjúgur undir körfunni og skilaði 19 stigum og 9 fráköstum, þar af 5 sóknarfráköstum.  Innkoma Elíasar Bjarka Pálssonar var einnig mjög góð en hann skilaði 14 stigum af bekknum.


Hjá ÍA var Þórður Freyr Jónsson besti maður vallarins með 27 stig og það með frábærri skotnýtingu sem innihélt meðal annars 6 þrista í 9 skot tilraunum og gaf að auki 6 stoðsendingar. Jalen Dupree átti einnig góðan leik og endaði með 23 stig og 11 fráköst.  Lucien Cristofis var flottur með 19 stig og 7 stoðsendingar.  Einnig verður að minnast á innkomu Franks Gerritsen í seinni hálfleik en hann spilaði frábæra vörn, stal 3 boltum og var gríðarlega mikilvægur á mikilvægum augnablikum í leiknum.

Áhugaverðir punktar úr leiknum:

-Liðin skiptust alls 24 sinnum á forystu í leiknum.

-ÍA leiddi með mest 7 stigum í leiknum og Hamar leiddi mest með 9 stigum í leiknum.

-Bæði lið tóku 26 varnar fráköst í leiknum.

-Hamar tók 19 sóknarfráköst á móti 9 í leiknum.

-Hamar tók 15 fleiri skot í leiknum en ÍA.

Tölfræði leiks

Úrslit kvöldsins

Myndasafn

Myndir / Jónas H. Ottósson

Umfjöllun / HH

Fréttir
- Auglýsing -