Í gær fór fram leikur Hamars og Vals í Iceland Express-deild kvenna sem átti að fara fram í síðustu viku. Um var að leik sem þurfti að fresta vegna veikinda.
Leikurinn var jafn og spennandi framan af og skiptust liðin á að hafa forystu. Eftir 1. leikhluta leiddu Hamars-stúlkur með 3 stigum, 21-18.
Sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta, jafnt var á með liðunum. Þegar 2 mínútur voru liðnar af leikhlutanum komust Vals-stúlkur yfir 21-22 og þær héldu forystunni nánast allan leikhlutann eða þangað til 1 mínúta var eftir. Þá jöfnuðu Hamars-stúlkur 33-33 og komust svo yfir í næstu sókn 35-33. Liðin fóru jöfn inn í hálfleikinn 35 – 35.
Heimastúlkur komu mun grimmari til leiks í seinni hálfleik heldur en þær rauðklæddu og juku þær forskotið jafnt og þétt. Þegar 5 mínútur voru eftir af 3. leikhluta var staðan orðin 51-40 fyrir Hamri og réðu gestirnir ekki neitt við neitt. Hamars-stúlkur skoruðu 25 stig í þessum leikhluta á móti einungis 10 stigum Vals og var staðan fyrir lokaleikhlutann 60-45.
Hamar gaf ekkert eftir í lokaleikhlutanum og skoruðu þær hvítklæddu 26 stig á móti 19 stigum Vals-stúlkna og lauk leiknum 86-64.
Atkvæðamest hjá Hvergerðingum var Koren Schram með 21 stig, 6 stolna bolta og 5 fráköst.
Næst á eftir henni kom Kristrún Sigurjónsdóttir með 20 stig og 5 fráköst. Þar á eftir voru Fanney Guðmundsdóttir með 16 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir með 13. Ótrúlegt var að sjá að boltinn vildi ekki ofaní, með góðu móti, hjá Sigrúnu Ámundardóttur og var hún einungis með 2/11 í tveggja stiga skotum sínum og 0/5 í þriggja stiga.
Hjá Val var Þórunn Bjarnadóttir atkvæðamest með 20 stig. Næst á eftir henni var Sakera Young með 13 stig og 8 stoðsendingar.
Pistill: Jakob Hansen
Myndir: Sævar Logi Ólafsson



