spot_img
HomeFréttirHeimasigur hjá Grindavík á Skallagrím

Heimasigur hjá Grindavík á Skallagrím

09:07

{mosimage}

(Adama Darboe) 

Grindavík vann góðan heimasigur á Skallagrími í Iceland Express deild karla í kvöld. Grindavík vann þar með sinn 5. sigur í  röð og tyllti sér við hlið Keflavíkur í efsta sætinu, en umferðinni lýkur annað kvöld þegar Keflavík fær KR í heimsókn. Frá þessu er greint á www.vf.is  

Einnar mínútu þögn var fyrir leikinn í minningu Mörtu Guðmundsdóttur en hún lék á sínum tíma með körfuknattleiksliðum Keflavíkur og Grindavíkur. Marta lést á þriðjudag á krabbameinsdeild Landspítalans. 

Það tók Grindvíkinga þrjár og hálfa mínútu að skora sín fyrstu stig gegn Skallagrími í kvöld. Fyrstu mínúturnar virtist sóknarleikur Grindvíkinga ryðgaður og áttu þeir í erfiðleikum með að brjóta vörn Skallagríms á bak aftur. Skallagrímur byrjaði leikinn mun betur og náði 0-7 forskoti snemma leiks. Eftir að Grindvíkingum tókst að brjóta ísinn gengu þeir á lagið og komust í fyrsta sinn yfir í leiknum í stöðunni 10-9 þegar fjórar mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Staðan var 21-13 eftir 1. leikhluta,Grindvíkingum í vil. 

{mosimage}

Grindvíkingar ætluðu greinilega ekki að láta það forskot af hendi og komu ákveðnir til leiks í 2. leikhluta. Grindavík spilaði góða vörn en þegar fjórðungurinn var u.þ.b. hálfnaður var Igor Beljanski kominn í villuvandræði. Skallagrímsmenn áttu hins vegar í erfiðleikum með að minnka muninn og var því staðan í leikhlé 46-35, heimamönnum í vil. 

Mikið var um þriggja stiga körfur í 3. leikhluta. Bæði liðin voru sérlega heit fyrir utan þriggja stiga línuna og Jonathan Griffin var einnig mjög heitur fyrstu mínúturnar. Grindvík náði mest 17 stiga forskoti áður en þjálfari Skallagríms tók leikhlé um miðjan fjórðunginn. Eftir það komust Borgnesingar meira inn í takt við leikinn og fyrir síðasta fjórðung var munurinn aftur orðinn 11 stig, 70-59. 

{mosimage}

Jafnræði var með liðunum í upphafi 4. leikhluta en Grindvíkingar þó ávallt skrefinu á undan. Skallagrímur átti góðan kafla og setti Milojica Zekovic niður tvo þrista í röð og minnkaði muninn niður í 8 stig og loka fjórðungurinn hálfnaður. Grindvík spýtti í lófana og jók forskotið á ný og sigraði að lokum örugglega 90-74. 

Jonathan Griffin átti skínandi leik hjá Grindavík og var atkvæðamestur með 32 stig og stal 7 boltum. Páll Axel Vilbergsson kom næstur með 14 stig en þeir Þorleifur Ólafsson og Páll Kristinsson voru báðir með 10 stig, en sá síðarnefndi tók einnig 9 fráköst. 

Hjá Skallagrími var Darrell Flake atkvæðamestur með 24 stig og 12 fráköst, Allan Fall  22 stig og 9 stoðsendingar og  Milojica Zekovic með 15 stig og 11 fráköst. Næsti leikur Grindavíkur verður á fimmtudaginn næstkomandi gegn Fjölni á útivelli. Skallagrímur mætir svo Snæfell í næstu umferð. 

Tölfræði leiksins 

www.vf.is

 

{mosimage}

 

{mosimage}

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -