spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHeimasigur eftir framlengdan leik

Heimasigur eftir framlengdan leik

Enn heldur Bónusdeild karla, í kvöld fengu Valsmenn Þórsara frá Þorlákshöfn í heimsókn. Það má segja að það sé mini-krísa hjá heimamönnum, búnir að tapa þremur leikjum í röð í deild og bikar. Það mátti því búast við að þeir myndu leggja allt í sölurnar að snúa þessu við. Þórsarar hafa svipaða sögu að segja, búnir að tapa tveimur leikjum í röð og eru í bullandi fallbaráttu ásamt því að eygja möguleikann á úrslitakeppnissæti. En leikurinn frekar jafn allan leikinn, mjög furðulegur í fyrri hálfleik og mjög lítið skorað. Valsmenn vöknuðu í þriðja leikhluta og svo var síðasti leikhlutinn æsispennandi sem endaði með jöfnum leik og því þurfti að framlengja. Þar voru heimamenn sterkari og unnu 80-71.

Liðin voru mjög áþekk til að byrja með, svipuð hittni hjá báðum og jafnt á öllum tölum til að byrja með, bæði tölfræðitölur og stigaskor.  Þegar skammt var eftir af leikhlutanum var eins og það væri búið að skrúfa fyrir báðar körfurnar, hvorugu liðinu tókst að skora í þó nokkurn tíma.  Eftir mjög þungar og klúðurslegar mínútur leiddu Þórsarar eftir fyrsta leikhluta 18-19.

Gestirnir byrjðu annan leikhluta síðan betur og náðu smá forskoti, Valsmenn voru samt aldrei langt undan.  Það var samt sami flumbrugangurinn í sókninni hjá báðum liðum, það var hálf hlægilegt eða sorglegt að fylgjast með þessu á köflum.  Leikhlutinn endaði 12-16 fyrir gestina og leiddu þeir því í hálfleik, 30-35.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn mjög vel, settu fyrstu sex stigin áður en Þór náði að svara. Lalli neyddist til að taka leikhlé eftir 3 mínutur, enda voru Valsmenn að vinna þennan leikhluta 10-2.  Það var allt annar bragur á heimamönnum, mjög grimmir í vörninni og spiluðu sem lið í sókninni. Þetta virtist slá Þórsara út af laginu. En eftir góðan og djúpan þrist frá Lazar Lugic og innkomu Ísaks kom meiri orka í gestina.  Valsmenn fóru inn í síðasta leikhlutann með 5 stiga forystu, 53-48.

Það kom mun meiri ákefð í gestina í upphafi fjórða leikhluta, enda eins gott því annars hefði þessi leikur verið búinn strax. Valsmenn svöruðu samt ákefðinni og héldu muninum í 2-5 stigum.  Eða alveg þangað til tvær mínútur voru til leiksloka, þá komast gestirnir yfir. Valsmenn jöfnuðu og eftir mikinn darraðadans þar sem bæði lið gátu komið sínu liði yfir, endaði hann jafn, 65-65, framlenging.

Valur, sem kann þá lyst að loka leikjum, byrjaði betur og setti niður fyrstu 9 stigin þegar Þórsarar tóku leikhlé. Það skilaði þeim körfu frá Jacoby, sem hingað til hafði verið hörmulegur. Hann setti niður aðra stóra körfu skömmu síðar. En Valsmenn sýndu góða baráttu og sigruðu með herkjum, það var þá helst fyrir frábært framlag frá Kára. Það setti skuggga á þennan sigur að Kristófer fór haltrandi útaf. En Valur vann, 80-71.

Hjá Valsmönnum var Kári með 22 stig Kristófer með 17 stig og 11 fráköst. Hjá Þór var Lanaras með 18 stig og Lazar Lugic með 17 stig. Síðan má gefa Ísaki Júlíusi kredit fyrir mikla orku og baráttu, þarf bara að stilla miðið betur.

Valsmenn heimsækja topplið Grindavíkur í næstu umferð, 29. janúar en Þórsarar fá Keflavík í heimsókn, 30. janúar.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -