Haukar og Stjarnan mættust í kvöld í Iceland Express deild karla. Var þetta í fyrsta skipti í átta ár sem liðin mættust á körfuboltavellinum og vettvangurinn voru Ásvellir í Hafnarfirði. Fyrir leikinn höfðu Stjörnumenn 10 stig í 6. Sæti en Haukar 6 stig.
Erfitt var að greina á milli liðanna í byrjun. Sveinn Ómar Sveinsson stóð sig vel í liði Hauka og hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson mjög duglegur að fiska villur á heimamenn. Fór svo að fyrsta leikhluta lauk með eins stigs forystu Garðbæinga, 23-24. Sveinn var kominn með 11 stig og Marvin tíu stig á þessum tímapunkti.
Annar fjórðungur var mjög svipaður þeim fyrsta. Sjaldan var munurinn á liðunum meiri en eitt stig og oft jafnt. Undir lokin tókst Hafnfirðingum þó að sigla örlítið framúr og höfðu þeir 51-47 forystu í hálfleik, eftir ansi jafnan leik.
Fyrri tveir leikhlutarnir gáfu þó engan veginn í skyn hvað var á leiðinni. Heimamenn gjörsamlega léku sér að Garðbæingum og náðu 20 stiga forystu. Haukur Óskarsson rigndi niður þristunum og ekkert gekk upp hjá Stjörnunni. Í lok þriðja leikhluta var staðan orðin 79-58 Haukum í vil og ljóst að Stjörnumenn áttu ansi strembið verkefni fyrir höndum í lokafjórðungnum.
Eftir leiftursóknina í þriðja leikhluta varð sá fjórði í raun formsatriði fyrir Hauka. Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að bjarga andlitinu en það var of lítið of seint og fór svo að Haukar unnu ansi þægilegan, en þó nokkuð óvæntan, 100-85 sigur á grönnum sínum í Stjörnunni.
Gerald Robinson fór fyrir Haukum og skoraði 29 stig og Haukur Óskarsson var með 22, þar af 6 þrista. Marvin Valdimarsson gerði 21 stig fyrir gestina og Jovan Zdravevski var með 20.
Mynd: Jovan Zdravevski og Sveinn Ómar Sveinsson spiluðu vel fyrir lið sín i kvöld.
Umfjöllun: Elías Karl




