spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaHeiða Hlín og Eva Wium skrifa undir hjá Þór Akureyri

Heiða Hlín og Eva Wium skrifa undir hjá Þór Akureyri

Þór Akureyri heldur áfram að semja við leikmenn fyrir komandi tímabil í fyrstu deild kvenna, en þar mun félagið á nýjan leik tefla fram liði eftir nokkurra ára hlé.

Nú um helgina tilkynnti Þór að þær Heiða Hlín Björnsdóttir og Eva Wium Elíasdóttir hefðu báðar skrifað undir samning þess efnis að leika með liðinu á komandi tímabili.

Heiðu Hlín hafði Þór kynnt áður, en hún hefur nú skrifað undir hjá félaginu.

Líkt og Heiða, er Eva Wium uppalinn Þórsari sem snýr heim eftir tveggja ára fjarveru. Á síðasta tímabili lék hún með Tindastól þar sem hún skilaði 16 stigum, 7 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Tilkynning:

Heiða Hlín Björnsdóttir og Eva Wium Elíasdóttir skrifuðu undir samninga við körfuknattleiksdeild Þórs í dag. Heiða Hlín gerði í liðinni viku munnlegt samkomulag við Þór um að leika með liðinu á komandi tímabili og í dag var þetta svo staðfest með undirritun samnings.

Í dag bættist enn í hópinn þar sem Eva Wium Elíasdóttir hefur ákveðið að snúa heim eftir tveggja ára fjarveru og mun hún spila með liðinu á komandi tímabili. 


Eva Wium er uppalin hjá Þór og þótti snemma mjög efnileg og var aðeins 14 ára og 167 daga gömul þegar hún þreytti frumraun sína með meistaraflokki. Það var í leik gegn ÍR sem fram fór í íþróttahúsi Síðuskóla 14. október 2018 leiknum lauk með sigri Þórs 52-33. Á fyrsta ári með meistaraflokki spilaði Eva 17 leiki og að meðaltali tók hún 1.8 fráköst var með 0.6 stoðsendingar og skoraði 1.6 stig að meðaltali í leik. Að loku tímabilinu 2018-2019 dró Þór lið sitt úr keppni og spilaði Eva með 10. flokki tímabilið 2019-2020 en gekk til liðs við Tindastól fyrir síðasta tímabil. Eva sem er 17 ára gömul er ekki lengur bara efnileg heldur orðin frábær leikmaður. 

Á nýliðnu tímabili var hún t.a.m. stigahæst Tindastóls með 16 stig að meðaltali í leik. Þá var hún með 6.5 fráköst og 2.4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Svo á þessu sést að það er mikill fengur í að fá þennan sterka leikmann heim á ný og verður gaman að fylgjast með henni í vetur.

Þar með bætist Eva Wium í vaxandi hóp leikmanna sem ætla taka slaginn með Þór. Áður hafði Þór samið við Hrefnu Ottósdóttir og Ásgerði Jönu Ágústsdóttir sem og gert munnlegt samkomulag við Heiðu Hlín sem í dag staðfesti komu sína endanlega með undirritun.

Óskum þeim stöllum til hamingju með samningana og hlökkum til að sjá þær á ný á parketinu í Þórstreyjunum. 

Það var Hjálmar Pálsson formaður körfuknattleiksdeildar sem undirritaði samningana fyrir hönd félagsins.

Fréttir
- Auglýsing -