spot_img
HomeFréttirHefur snúist vel síðan Teitur tók við

Hefur snúist vel síðan Teitur tók við

22:56
{mosimage}

(Gunnar Kristinn Sigurðsson)

Gunnar Kristinn Sigurðsson er formaður Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og var hann kampakátur þegar Karfan.is náði tali af honum eftir sigurleik Stjörnunnar gegn Njarðvík í undanúrslitum Subwaybikarsins. Stjarnan mun þann 15. febrúar leika sinn fyrsta bikarúrslitaleik og var það auðséð á viðbrögðum Garðbæinga í gærkvöldi að þeir muni fjölmenna í Laugardalshöll þegar þar að kemur. Gunnar hefur séð tímana tvenna í rekstri deildarinnar, hefur farið með klúbbinn upp úr 1. deild í Iceland Express deildina en hefur nú náð langþráðu markmiði, að komast í stórleik.

Hvernig er að vera formaður núna þegar búið er að marka skil í körfuknattleikssögu Garðabæjar?
Það er náttúrulega alveg frábært. Þetta er eitthvað sem maður er búinn að dreyma um, að komast í úrslitaleik eða úrslitakeppnina í úrvalsdeildinni þannig að þetta er alger snilld.

Stjarnan hefur oft séð það svart í körfuboltanum. Ert þú farinn að horfa núna fram á bjartari tíma?
Já maður getur ekki neitað því. Þetta hefur snúist vel síðan Teitur Örlygsson tók við liðinu. Mannskapurinn er kominn með meira sjálfstraust og strákarnir verða að nota sér það og keyra áfram og klára dæmið. Ég held að það sé komið að ákveðnum vendipunkti hjá okkur.

Núna með hverjum sigrinum sér maður að það fjölgar í stúkunni í Ásgarði. Hvað áttu von á mörgum Garðbæingum í Laugardalshöll þann 15. febrúar næstkomandi?
Við ætlum að gera allt sem við getum til að fá sem flesta í Höllina, dreifa miðum í hús og gera allt vitlaust. Ég hef fulla trú á því að við náum helling af fólki og minnugur þess að þegar handboltinn fór í bikarúrslit í Höllina fyrir nokkrum árum síðan þá var brjáluð stemmning og við ætlum bara að endurtaka það.

Spilaðir þú eitthvað sjálfur með meistaraflokki Stjörnunnar á sínum tíma?
Já, eitthvað var það nú fyrir mörgum árum þegar Björn Leósson var að þjálfa Stjörnuna á sínu fyrsta ári í 1. deild. Svo fór maður bara að gera eitthvað allt annað.

Hvernig gengur yngri flokka starfið? Eigið þið von á því að yngri leikmenn fari brátt að láta kveða að sér með meistaraflokki?
Núna eru einmitt strákar, og það hefur ekki gerst í nokkur ár, sem eru nýjir í liðinu og þeir koma úr 11. flokk og drengjaflokk en svo erum við með þar fyrir neðan frábæra stráka í 8. flokk og 7. flokk, strákar sem eru í A-riðli í sínum flokkum og eftir 2-3 ár verðum við komnir með leikmenn þar sem gætu látið að sér kveða.

Skrýtin staða að vera komin í bikarúrslit en ekki vera öruggur um sæti liðsins í deildinni?
Já, það er soldið skrýtið en þetta er kannski smá öskubuskusaga og vonandi getum við komið á óvart í deildinni líka og komist inn í úrslitakeppnina. En það verður hörkubarátta.

 

Þið náðuð með naumindum að halda ykkur í deildinni í fyrra. Hefur þú trú á því að þið verðið áfram í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð?
Já, ef liðið spilar svona áfram. Menn mega ekki halda núna að eitthvað sé komið í hönd heldur verða menn að herða róðurinn og klára mótið með stæl og ég hef fulla trú á því að þeir geri það. Liðið hefur unnið Grindavík, Njarðvík á sunnudagskvöld og ég hef trú á því að við getum klárað fullt af liðum í Ásgarði.

Þið mætið KR í úrslitum bikarkeppninnar. Hefur þú trú á því að Stjarnan sé liðið sem stöðvi sigurgöngu KR?
Já, algjörlega. Við áttum í fullu tréi við þá í einhverjar 36 mínútur hér í Ásgarði og af hverju getum við ekki endurtekið þannig leik og látið sigurinn falla réttu megin?

Bikarúrslit framundan og úrslitakeppni í körfunni og umfang leikjanna stækkar með hverjum leik. Verður þú orðinn gráhærður af álagi í júní?
Ég er nú farinn að grána aðeins en það er alltaf að aukast það fólk sem kemur að starfinu okkar og fyrir nokkrum árum síðan var þetta á höndum fárra manna en nú er fjöldi fólks í þessu og maður er hættur að þurfa að hringja út í hin ýmsu verkefni. Þessi umgjörð sem við erum að skapa okkur ætti bara að auka áhugann hjá fólki og skilar sér í framtíðinni, alveg pottþétt.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -