spot_img
HomeFréttir"Hefur eitt og annað til að verða mjög sérstakur leikmaður"

“Hefur eitt og annað til að verða mjög sérstakur leikmaður”

 

Í dag tekur íslenska landsliðið á móti Slóveníu kl. 10:45 á lokmóti EuroBasket í Helsinki. Íslenska liðið til þessa tapað öllum þremur leikjum sínum, en slóvenarnir sigrað alla sína. Margir skemmtilegir leikmenn eru í liði Slóveníu, en líklegast þó enginn jafn spennandi og ungstirnið Luka Doncic.

 

Karfan heyrði í þjálfara Keflavíkur og undir 18 ára liðs drengja, einum helsta speking landsins þegar að kemur evrópska boltanum, Friðriki Inga Rúnarssyni og spurðum hann út í leikmanninn.

 

Um Luka sem leikmann segir Friðrik:

"Luka Doncic er hávaxinn leikstjórnandi en hann er rúmir 2 metrar. Það er ákveðin sérstaða að vera svona hávaxinn með þann mikla leikskilning sem hann er með. Hann sér völlinn einstaklega vel og hann veit nákvæmlega hvar samherjar hans eru hverju sinni þegar hann keyrir á körfuna eða hleypur af boltaskrínum. Hann sér um leið hvaðan hjálpin kemur og þangað fer boltinn. Luka getur einnig skotið að utan sem er sterkt vopn fyrir miðjubakvörð og var hann t.d. með um 38% nýtingu utan 3-stiga línunnar í Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð."

 

Þá segir Friðrik hann mikið efni, þar sem hann hafi verið kominn í byrjunarlið Real Madrid aðeins 17 ára gamall, en þeir eru með eitt af fjórum bestu liðum Evrópu og að það eitt og sér sýni hverskonar trú er á honum sem leikmanni. Einnig það að hann hafi ekkert spilað með undir 18 ára liði Slóveníu í sumar, en byrji í staðinn inni á vellinum fyrir þá á stærsta sviðinu, EuroBasket.

 

 

Frammistaða leikmannsins verið frábær það sem af er móti. Í þeim þrem leikjum sem Doncic hefur spilað á mótinu til þessa hefur hann skorað 14 stig, tekið 7 fráköst og gefið 4 stoðsendingar, en lið hans hefur enn ekki tapað leik.

 

Eins og eðlilegt er með svona efnilega leikmenn er að sjálfsögðu farið að máta hann inn í NBA deildina. Einhverjir halda að hann eigi eftir að fara fyrr en seinna, en hann kemur ítrekað upp í greinum sérfræðinga fyrir næsta vor.

 

Um þetta segir Friðrik:

"Margir NBA draftfræðingar eru á því að hann fari mjög snemma í NBA valinu næsta sumar. Luka hefur eitt og annað til að verða mjög sérstakur leikmaður í framtíðinni, næstu misseri munu skera úr um hversu langt hann kemst enda er athyglin á honum ekki venjuleg. Til þessa hefur hann leyst það vel og greinilega hugsað vel um hann hjá Real Madrid og hjá slóvenska landsliðinu."

 

Að lokum segir Friðrik að gaman verði að sjá íslenska liðið etja kappi við eitt mesta efni körfuboltans í dag.

 

 

Fréttir
- Auglýsing -