spot_img
HomeFréttirHefnd Hauka sæt

Hefnd Hauka sæt

Það var boðið upp á rafmagnaða stemningu á Ásvöllum í kvöld þegar KR stúlkur mættu í fjörðinn til að leika við Hauka í fyrstu umferð Iceland Express deildarinnar. Haukar höfðu betur að þessu sinni og unnu leikinn með minnsta mögulega mun, 65-64. Haukar náðu því að bæta fyrir síðustu tvo leiki gegn KR en liðin mættust bæði í Lengjubikarnum þar sem KR sigraði með með einu stigi og í Meistarakeppni KKÍ sem að KR vann örugglega.
KR-stúlkur byrjuð betur á Ásvöllum og höfðu yfirhöndina allan fyrsta leikhluta og var staðan að honum loknum 13-20 gestunum í hag. Margrét Kara Sturludóttir var sjóðheit í liði KR og gerði 12 stig í leikhlutanum.
 
KR hélt forystunni í öðrum leikhlutanum en Haukarnir náðu þó að saxa á forskotið fyrir hálfleikinn og munaði aðeins einu stigi á liðunum í hálfleik. Brotið var á Þórunni Bjarnadóttur í þriggja stiga skoti um leið og flautan gall og setti hún niður öll þrjú skotin og minnkaði muninn í eitt stig . Endasprettur Hauka var sterkur í leikhlutanum en þær skoruðu síðustu 14 stig leikhlutans og staðan 33-34 KR í vil.
 
Seinni hálfleikur var jafn og spennandi og var baráttan í fyrirrúmi. Haukar náðu að komast yfir í byrjun seinni hálfleiks og eftir það var jafnt á nánast öllum tölum. Staðan var jöfn eftir þriðja leikhluta 40-40.
 
Í fjórða leikhluta var ekkert gefið eftir og voru síðustu mínúturnar ótrúlega spennandi. Íris Sverrisdóttir koma Haukunum 4 stigum yfir með tveimur vítum þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Hvorugt liðið náði að skora fyrr en um 30 sek. voru eftir þegar Hildur setti niður stökkskot og munurinn því orðin tvö stig. Kr-ingar pressuðu og brutu og sendu Hauka á línuna enda komnir í bónus . Íris Sverrisdóttir setti niður bæði skotin sín og munurinn því aftur orðinn fjögur stig og 12 sek. eftir. Hildur Sigurðardóttir brunaði upp völlinn og setti niður þrist spjaldið ofan í. KR-ingar brutu aftur, að þessu sinni á Þórunni Bjarnadóttur en hún misnotaði bæði vítaskotin. Guðrún Gróa náði frákastinu og boltinn barst til Hildar sem náði skoti en það var erfitt og fór ekki ofan í. Haukar sigruðu því með einu stigi eftir æsispennandi lokamínútur.
 
Atkvæðamestar í liði Haukar voru Íris Sverrisdóttir með 20 stig og Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 15 stig og 10 fráköst.
 
Hjá KR-ingum var Hildur Sigurðardóttir atkvæðamest með 26 stig og næst henni kom Margrét Kara Sturludóttir með 16 stig og 9 fráköst.

Myndasafn úr leiknum

 
Mynd: Tomasz Kolodziejski
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -