spot_img
HomeFréttirHefðu þurft fimmta leikhlutann gegn Belgíu

Hefðu þurft fimmta leikhlutann gegn Belgíu

Undir 20 ára lið kvenna leikur þessa dagana í A deild Evrópumótsins í Matosinhos í Portúgal.

Liðið hefur þegar náð sögulegum árangri á mótinu með því að komast í átta liða úrslit mótsins. Lengra komust þær þó ekki, en í átta liða úrslitunum töpuðu þær fyrir sterku liði Litháen.

Mótinu var þó ekki lokið með því hjá liðinu, en í dag töpuðu þær fyrir Belgíu í fyrri leik umspils um sæti 5 til 8 á mótinu, 90-75. Þær munu því næst leika á morgun um 7 til 8 sætið gegn liðinu sem tapar viðureign Tyrklands og Ísrael.

Íslenska liðið fór illa af stað í leik dagsins og voru þær komnar 16 stigum undir eftir fyrsta leikhluta. Undir lok hálfleiksins ná þær aðeins áttum, en ekki nægilega og er munurinn 20 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik. Segja má að Belgía hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Ná þær að setja forskot sitt í 30 stig fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða var svo eins og kviknað hafi á íslenska liðinu. Varnarlega náðu þær stoppum og þá voru skot þeirra að detta. Allt kom þó fyrir ekki hjá liðinu og var munurinn fyrir þennan flotta leikhluta þeirra einfaldlega of mikill. Niðurstaðan að lokum var nokkuð öruggur 15 stiga sigur Belgíu.

Stigahæst fyrir Ísland í dag var Kolbrún Ármannsdóttir með 21 stig. Henni næstar voru Jana Falsdóttir með 13 stig og Anna María Magnúsdóttir og Rebekka Rut Steingrímsdóttir með 9 stig hvor.

Tölfræði leiks

Upptaka af leiknum

Fréttir
- Auglýsing -