spot_img
HomeFréttir"Hef tækifæri á að spila eins og ég vill"

“Hef tækifæri á að spila eins og ég vill”

Hörður Axel Vilhjálmsson sem nýverið færði sig til Tékklands spilaði í VTB deildinni í gær með liði sínu Nymburk. VTB deildin er ein af þremur deildum sem Hörður spilar í en hún samanstendur af liðum frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Tékklandi, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Kazakhstan.

Hörður skoraði tvö stig á þeim 18 mínútum sem hann spilaði í 79-61 sigri liðsins á Astana frá Kazakhstan og þar fyrir utan var hann með 1 frákast og 4 stoðsendingar.

Nymburk er í öðru sæti VTB deildarinnar tveim stigum á eftir Zenit frá Rússlandi sem eru á toppnum.

Í snörpu spjalli við Hörð sagði hann að hlutirnir hafi gerst hratt þegar hann færði sig yfir og ekki liðu nema þrír dagar frá því að hann heyrði af áhuga tékkneska liðsins þangað til hann var búinn að færa sig frá Grikklandi til Tékklands.

Hörður sagði jafnframt að þetta er eitthvað sem hann hefur stefnt á þ.e. að komast á stærra svið sem Fiba EuroCup er sem og þessi sameinaða deild VTB.

„Þarna hef ég tækifæri á að spila eins og ég vill sem er að spila hörku vörn, stýra leiknum og búa til fyrir aðra, hlutir sem kannski eru ekki jafn sýnilegir á tölfræðiblaðinu. Það er miklu meira metið þegar maður er kominn í svona lið og þarna hefur maður svo tækifæri á að koma sér í ennþá stærra lið þar sem maður þarf ekki að setja upp einhverja tölfræðiveislu til að vekja á sér athyggli.“

Hörður bætti því jafnframt við að vonandi sé þetta skref hans hvatning til yngri leikmanna að einbeita sér ekki alfarið að stigaskorun því að það er bara einn partur af leiknum.

Fréttir
- Auglýsing -