Íslenska landsliðið ferðaðist til Portúgal nú um helgina til þess að leika gegn heimakonum á morgun þriðjudag 18. nóvember. Leikurinn verður annar leikur liðsins í undankeppni EuroBasket 2027, en þeim fyrsta tapaði liðið heima í Ólafssal gegn Serbíu síðasta miðvikudag.
Leikur þriðjudagsins er á dagskrá kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni útsendingu á RÚV.
Karfan heyrði í Ólafi Jónasi Sigurðarsyni aðstoðarþjálfara Íslands um ferðalagið út, leikinn gegn Portúgal og hvernig breytingin sé að fá vera hluti af nýju þjálfarateymi liðsins undir stjórn hins finnska Pekka Salminen, en Ólafur er sá eini sem einnig var í teymi fyrrum þjálfara liðsins Benedikts Guðmundssonar.
Varðandi ferðalag Íslands út til Portúgal sagði Ólafur ,,Ferðalagið var langt en það gekk mjög vel. Millilentum í London í nokkra tíma þar sem við fengum okkur gott að boða og nýttum tímann vel í að fara í gegnum það sem betur mátti fara á móti Serbíu. Svo erum við búin að æfa vel síðan við komum út bæði lyfta og körfubolta þannig að það eru allir búnir að ná fluginu úr sér.”
Við hverju megi búast við af leiknum gegn Portúgal annað kvöld sagði hann ,,Já, við erum búin að kynna okkur liðið vel. Horfðum á leikinn þeirra á móti Serbíu auk þess að skoða eurobasket leikina hjá þeim. Þar sem það er sami þjálfari þá eru þau að hlaupa mikið af svipuðum actionum. Þetta er mjög sterkt lið sem vill keyra upp tempóið og spila physical bolta.”
Enn frekar bætti hann við “Við þurfum að mæta aggressífar varnarlega strax frá byrjun, megum alls ekki vera passífar. Einnig þurfum við að stjórna tempóinu og ná að hlaupa svolítið á þær. Þær eru líka með stóra og sterka leikmenn í teignum sem við verðum að gera vel á.”
Um nýtt þjálfarateymi liðsins og þær áherslubreytingar sem séu að eiga sér stað sagði Ólafur ,,Já ansi mikið nýtt í gangi og við erum búin að eyða miklum tíma í að hlaupa nýja sókn sem krefst þess að við hlaupum völlinn og spilum hratt. Það sást í leiknum að það er fullt jákvætt en þetta mun alveg taka smá tíma að komast inn. En við megum ekki heldur gleyma að við vorum að spila á móti ansi sterku liði Serbíu og þær eru góðar í að stoppa allt tempo hjá liðum þannig að þetta var ansi krefjandi. En ég hef mikla trú á því að við munum vera enn betur slípaðar saman fyrir næsta leik og þar þurfum við að ná að stjórna tempóinu í leiknum.”



