Ísland lagði Ítalíu úti í Tortona í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2027, 76-81.
Leikurinn sá fyrsti hjá báðum liðum í undankeppninni, en í seinni leik sínum tekur Ísland á móti Bretlandi heima í Laugardalshöll komandi sunnudag.
Hérna er meira um leik kvöldsins
Karfan heyrði í Viðari Erni Hafsteinssyni aðstoðarþjálfara íslenska liðsins og spurði hann út í leikinn.
Varðandi hvað hafi verið að skapa þetta fyrir Ísland í kvöld sagði Viðar Örn ,,Vorum að búa okkur til góð skot og hittum vel. Svo héldum við ró allan tímann þó við hefðum lent undir, gerðum vel á stórum mómentum í lokin. Fannst við líka vera með þá þegar við vorum ekki að gefa upp mikið af sóknarfráköstum”
Ísland er í riðli með Ítalíu, Litháen og Bretlandi þar sem að þrjú eftu liðin fara áfram í næstu umferð undankeppninnar, en þangað fara liðin með þau stig sem þau hafa unnið sér í fyrsta riðlinum og geta stórir sigrar líkt og gegn Ítalíu úti í Tortona í kvöld skipt gífurlegu máli, en varðandi það sagði Viðar ,,Öll stig og allir sigrar skipta miklu máli. Við þurfum að safna sem flestum stigum og koma okkur með sem mest inní næsta riðil. Fín byrjun og þurfum að fylgja því eftir á sunnudag”
Seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er heima í Laugardalshöll komandi sunnudag gegn Bretlandi, en af þremur andstæðingum Íslands í riðlinum er Bretland það lið sem er lægst skrifað. Varðandi leik sunnudagsins sagði Viðar ,,Við þurfum halda áfram á sömu nótum, vitum vel að við þurfum einbeitingu og orku. Ég hef engar áhyggjur af því að menn fari of hátt upp. Þurfum að byggja á því góða úr þessum, taka sjálfstraustið og góðu hlutina með okkur inní leikinn á sunnudag við Breta.” Enn frekar sagði hann að mikilvægt væri að fólk mætti til að styðja liðið á sunnudaginn ,,Óska eftir fullri höll og bið fólk vinsamlegast um að sleppa sér aðeins á pöllunum. Laugardalshöll þarf að vera partýstaður þegar landsliðið spilar þar sem allir skemmta sér syngja og tralla en ekki eins og bókasafn á þriðjudagsmorgni”



