spot_img
HomeFréttirHávaxnir miðherjar kljást í Ásgarði

Hávaxnir miðherjar kljást í Ásgarði

Síðastliðinn sunnudag var leikur í b-riðli drengjaflokks í Ásgarði. Lið Þórs frá Akureyri var mætt til að leika við b-lið heimamanna. Stjörnumenn eru með nokkuð stóran hóp í drengjaflokki og 11. flokki og eru því með b-lið í drengjaflokki, eins og þeir hafa reyndar verið með í nokkur ár og fá hrós fyrir það. Lið Stjörnumanna er skipað leikmönnum úr 11. flokki. Í sumar ákváðu forsvarsmenn Þórs að senda lið í keppni í drengjaflokki þótt þeir væru aðeins með einn leikmann á réttum aldri og að hann væri nýbyrjaður í körfu. Hugsanlega hafði sú ákvörðun KKÍ að getuskipta riðlum í drengjaflokki áhrif á þessa ákvörðun.
 
 
 
Leikurinn byrjaði ágætlega og var nokkuð spennandi í fyrstu lotunni og voru gestirnir yfir þegar henni lauk 14-21. Í næstu lotu lék Stjarnan með lágvaxnara lið á meðan Þór hélt hæð sinni og hjálpaði það gestunum til að ná góðum tökum á leiknum og vera yfir í hálfleik 25-41. Ágætis jafnvægi var á milli liðanna í þriðju lotunni og sýndu þau oft góða takta, staðan í lok hennar var 35-55. Í síðustu lotunni dró á milli liðanna og munaði mest um að Þór nýtti sér hæðarmun sinn vel í vörn og sókn og endaði leikurinn með sigri gestanna, 41-73.
 
 
Þessi leikur var ágætis skemmtun fyrir áhorfendur sem klöppuðu oft fyrir góðum tilþrifum í leik beggja liða. Sérstaklega var áhugavert að fylgjast með baráttu og tilþrifum miðherja Stjörnunnar og Þórs. Sá minni þeirra er yfir tveimur metrum á hæð og hinn er meira en 15 cm  hærri. Þessir leikmenn eru mjög efnilegir. Þjálfarar stóðu sig vel og dreifðu leikmínútum ágætlega. Mjög góðir dómarar leiksins voru þeir Jón Páll Jónasson og Sævar Snorrason. Starfsmenn á borði stóðu sig vel og leikurinn fór fram við topp aðstæður í Ásgarði, þar sem parketið er mjög gott og allt annað til fyrirmyndar.
 
Benedikt Bjarnason var með 9 stig fyrir Stjörnuna, Gunnar Sigurðarson, Guðjón Guðrúnarson og Dagur Óttarsson voru með 7 stig hver.
Hjá Þór var Tryggvi Snær Hlinason var 28 stig, Sturla Elvarsson var með 13 og Atli Guðjónsson með 9. Þess ber að geta að Tryggvi var með yfir 20 fráköst, nokkrar góðar troðslur og fjölmörg varin skot.
  
Fréttir
- Auglýsing -