spot_img
HomeFréttirHaukur: Lúðrar á lofti og þvílík læti

Haukur: Lúðrar á lofti og þvílík læti

 
,,Þetta var bara geðveikt, ég var pínu stressaður í byrjun þannig að svona fyrstu varnirnar og sóknirnar var maður alltaf hikandi og sóknarmaðurinn komst fram hjá mér tvisvar í röð, en skoraði nú ekki sem betur fer,“ sagði Haukur Helgi Pálsson í léttur í bragði þegar Karfan.is náði af honum tali. Haukur var í byrjunarliði Manresa um helgina gegn Joventut þegar ACB deildin á Spáni fór af stað.
,,Í fyrsta leikhlé kom skoski leikmaðurinn okkar að mér og sagði mér að hætta að vera hræddur, spila eins og ég hefði verið að gera á æfingum og þá byrjaði þetta að ganga aðeins betur hjá mér. Svo á endanum var þetta bara orðið eins og hver annar leikur sem ég hef spilað,“ sagði Haukur sem gerði 2 stig í leiknum og tók 3 fráköst.
 
,,Þjálfarinn var mjög ánægður með vörnina mína og ég held að þessvegna hafi ég fengið að spila mikið,“ sagði Haukur sem hafði þó eitthvað út á tölfræðina að setja í leiknum. ,,Það vantaði eitt til tvö fráköst í viðbót og svo var ég með þrjú varin skot í leiknum,“ sagði Haukur og vonandi að Spánverjar kippi þessu í liðin sem allra fyrst.
 
,,Þetta var annars bara geðveikt, lúðrar á lofti og þvílík læti og gaman að leikurinn sem maður byrjar inná sé sigurleikur.“
 
Næsti leikur Manresa í ACB deildinni er gegn Fuenlabrada á útivelli þann 12. október næstkomandi. Þá var leik CAI Zaragoza og Valladolid frestað um helgina en Jón Arnór Stefánsson og Zaragoza leika þá sinn fyrsta leik þann 12. október gegn Valencia á útivelli.

Myndbrot úr leik Manresa og Joventut

 
Mynd/ www.basquetmanresa.com – Haukur er nr. 4 á myndinni.
Fréttir
- Auglýsing -