spot_img
HomeFréttirHaukur: Getum unnið þetta allt saman

Haukur: Getum unnið þetta allt saman

Úrslitakeppnin í LEB Gold deildinni á Spáni hefst næsta föstudag en LEB Gold er næst efsta deild Spánar og í úrslitakeppninni verður landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson í eldlínunni með Breogan sem lauk keppni í 4. sæti deildarinnar. Andorra vann deildina og fékk fyrir vikið sæti í ACB deildinni á næsta tímabili og líkt og í 1. deildinni á Íslandi þarf Andorra þá ekki að taka þátt í úrslitakeppni LEB Gold.
 
 
Haukur Helgi og Breogan mæta Penas í fyrstu umferð en Penas hafnaði í 7. sæti deildarinnar. Haukur Helgi er að verða betri en hann hefur verið að glíma við ökklameiðsli undanfarið.
 
„Penas eru með gott lið, hafa einn af bestu fjörkunum í þessar deild og mjög góðan ungan þrist. Við unnum þá nokkuð sannfærandi á þeirra heimavelli með um 20 stiga mun en það var erfiðari leikur þegar þeir komu til okkar,“ sagði Haukur Helgi en vinna þarf tvo leiki í 8-liða úrslitum LEB Gold til þess að komast áfram í undanúrslit.
 
„Auðvitað er mikilvægt að vinna þennan fyrsta leik enda viljum við ekki fara á útivell með bakið upp við vegginn. Mórallinn er þokkalegur í hópnum, allir vilja vinna og trúa því að við getum unnið þetta allt saman. Við höfum unnið öll þessi lið einu sinni nema Coruna. Burgos eru líklegastir til að vinna þetta allt saman en ég tel okkur ver þar næsta á eftir,“ sagði Haukur og bætti við að það væri mikilvægt fyrir Breogan að detta ekki í eitthvað 1 á 1 rugl.
 
„Ökklinn á mér var orðinn þokkalegur en svo gerist það í seinasta leik að ég misstíg mig aðeins í vörninni og hann bólgnaði aftur upp. Nú er ég bara að ná mér almennilega aftur eftir það. Ég verð vonandi orðinn góður fyrir fyrsta leik, ef ekki þá verð ég klárlega orðinn góður fyrir leik tvö,“ sagði Haukur.
 
Smávægilegt hnjask er í herbúðum Breogan fyrir úrslitakeppnina en menn almennt frískir að sögn Hauks.
 
Play-Off bracket
  
Fréttir
- Auglýsing -