spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaHaukur gerði gæfumuninn gegn Haukum

Haukur gerði gæfumuninn gegn Haukum

Nýliðar Hauka hafa verið eins og aðskotahlutur í toppbaráttunni í allan vetur og geta með sigri í kvöld gegn Njarðvík jafnað ljónin að stigum! Fari svo munu Haukar og Njarðvík sitja í 2.-3. sæti með 26 stig þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Á toppnum sitja Valsmenn með aðeins tveimur stigum betur.

Njarðvísku ljónunum hefur tekist að fela sig í músarbúningi í vetur en nú eru menn byrjaðir að sjá hina réttu ásjónu þeirra. Síðast þurfti liðið að lúta í gras að Hlíðarenda gegn Íslands- og bikarmeisturunum en það var einhvern tímann á síðasta ári! Áframhaldandi sigurganga í kvöld í Ólafssalnum fagra er þó engan veginn sjálfsögð, Haukar hafa nefnilega ekki heldur tapað á árinu fyrir utan ósigur gegn fyrrnefndum Íslands- og bikarmeisturum í byrjun febrúar. 

Kúlan: Í Kúlunni góðu getur að líta gullpeninga- og blóðregn yfir öllum Reykjanesskaganum, ekki síst yfir Gullborginni góðu. Það merkir að gestirnir munu hafa sigur eftir blóðuga og spennandi baráttu, lokatölur verða 82-88.

Byrjunarlið

Haukar: Hilmar, Orri, Davis, Mortensen, Giga

Njarðvík: Martin, Mario, Richotti, Basile, Logi

Gangur leiksins

Heimamenn voru hálfu skrefi á undan gestunum fyrstu mínúturnar. Mario var í super-útgáfunni og leiddi sína menn á sóknarvelli en Daninn snjalli Mortensen var í því hlutverki fyrir Haukana. Eftir slæma mínútu gestanna komust heimamenn í 22-15 og Benni kippti í handbremsuna er 4 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Það hafði ekki mikið að segja, Orri Gunn kom sínum mönnum 9 stigum yfir með smekklegum þristi, staðan 27-18. Í fjórðungaskiptum leiddu Haukar 29-22 og útlitið nokkuð gott fyrir nýliðana.

 Haukar héldu frumkvæðinu framan af öðrum leikhluta og um hann miðjan höfðu þeir komið upp 10 stiga múrnum góða, staðan 39-29. Þá snerist leikurinn hægt og bítandi gestunum í vil, liðið komst smátt og smátt í betri takt sóknarlega og Haukur, Oddur og Baginski komu inn af bekknum og létu að sér kveða. Baginski jafnaði leikinn í 44-44 og bætti við þristi í blálok fyrri hálfleiks og segja má að Njarðvíkingar hafi stolið forystunni af heimamönnum og leiddu 47-49 í hléi.

Það mætti orða það sem svo að gæði og breidd Ljónanna hafi komið í ljós hægt og rólega í leiknum og vörnin varð ákafari í sama hlutfalli. Haukur Helgi fór mikinn í þriðja leikhlutanum og gestirnir sigu framúr. Eftir dæmigerðan stolinn bolta Basile á miðjum vellinum og auðvelt sniðskot tók Maté leikhlé í stöðunni 61-72 og rúmar 2 mínútur eftir af þriðja leikhluta. Þó syrti áfram í álinn fyrir Hauka og gestirnir fóru með 64-80 stöðu til bekkjar eftir þriðja leikhluta.

Gestirnir bættu við forskotið í byrjun fjórða og Logi kom sínum mönnum 21 stigi yfir með þristi þegar tæpar 9 mínútur lifðu leiks. En Haukamenn gáfust ekki upp og með Davis og Giga á bekknum börðust þeir áfram og tókst að minnka muninn í 10 stig, 82-92, rúmar þrjár mínútur voru þá eftir og Benni tók leikhlé til að skerpa sína menn. Það fór ágætlega á því að Súper-Mario kláraði leikinn endanlega með þristi þegar 40 sekúndur voru eftir og setti stöðuna í 86-95 og úrslit ráðin. Lokatölur urðu 89-97 í flottum sigri Njarðvíkur sem hafa nú unnið guð-má-vita-hvað marga leiki í röð!

Menn leiksins

Haukur Helgi gerði gæfumuninn í kvöld, skilaði 20 stigum og 8 fráköstum á tæpum 30 mínútum. Mario spilaði einnig fantavel, skilaði 19 stigum og 4 fráköstum. Benda má á að breiddin hafði mikið að segja, Oddur, Baginski og Rasio skiluðu samtals 22 stigum af bekknum.

Mortensen var á eldi í kvöld, setti 29 stig, tók 9 fráköst og gaf 10 stoðsendingar! Frábær leikmaður eins og allir vita. Orri Gunn skilaði einnig flottum tölum, setti 20 stig og tók 5 fráköst.

Kjarninn

Maté hefur ekki ástæðu til að bölsótast mikið út í sína menn þrátt fyrir tap í kvöld. Í viðtali eftir leik sagði hann reyndar að Giga og Davis hafi einfaldlega ekki spilað nægilega vel í kvöld en samt sem áður átti liðið alveg ágætan leik. Njarðvíkingar eru einfaldlega með eilítið sterkari hóp heildina á litið og meiri fjölbreytileika eins og Maté benti réttilega á í viðtalinu. Maté vildi þó meina að Haukaliðið sé ekki svo fjarskalangt frá bestu liðum landsins, ,,…ég þarf mánuð í viðbót til að vinna þetta Njarðvíkurlið…“ sagði hinn skemmtilegi og metnaðarfulli þjálfari Hauka sem lætur sig auðvitað dreyma um Íslandsmeistaratitil.

Njarðvíkingar mættu kannski ekki alveg nógu ákveðnir til leiks í kvöld enda lentu þeir 10 stigum undir í öðrum leikhluta. Það er hins vegar sjálfstraust í liðinu og langt í frá að einhvern örvænting hafi gripið um sig. Vörnin þéttist er á leið og Benni og félagar fundu leiðir til að smyrja sóknarleikinn að sama skapi. Stigin voru nánast komin í hús að þriðja leikhluta loknum þrátt fyrir góða baráttu heimamanna í þeim fjórða. Benni var eðlilega að mestu sáttur í viðtalinu eftir leik en ef við lesum á milli línanna leitaðist hann einkum við að halda sér og sínum á jörðinni, liðið hefur ekkert unnið enn þó allt líti vel út þessa stundina.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -