spot_img
HomeFréttirHaukur á leið til Spánar: Liðið skipað ungum leikmönnum

Haukur á leið til Spánar: Liðið skipað ungum leikmönnum

 
,,Ég er nú bara á leið út á flugvöll,“ sagði Haukur Helgi Pálsson fyrir nokkrum mínútum þegar Karfan.is sló á þráðinn en kappinn hefur komist að samkomulagi við Manresa á Spáni um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Manresa er í ACB deildinni sem þykir ein sú sterkasta fyrir utan NBA deildina.
Hlutirnir gerast hratt hjá Hauki þessa dagana og var hann á leið út á Keflavíkurflugvöll þegar Karfan.is hafði tal af honum. Haukur segir tækifærið spennandi enda leiki margir ungir leikmenn með Manresa.
 
,,Þetta er ekki rosalega stór klúbbur, færri en 100 þúsund manns búa í bænum en liðið hefur mikið af ungum leikmönnum og það freistaði. Þetta er tækifæri til að spila í ACB deildinni og mæta Jóni Arnóri,“ sagði Haukur sem ráðfærði sig við Jón á meðan hann var að skoða sín mál.
 
,,Hann hjálpaði mér að læra aðeins á reipin og ég ræddi þetta mikið við hann og virkilega þægilegt að geta leitað til hans,“ sagði Haukur sem verður ekki nema í rúmlega klukkustundar lestarfjarlægð frá Jóni á Spáni og því ekki loku fyrir það skotið að þeir félagar bralli eitthvað saman á tímabilinu.
 
,,Ég er á leið út núna eftir að hafa verið hér heima í sumar, þeir vildu fá mig út núna. Það var Manresa sem hafði svo strax samband við umboðsmanninn minn þegar ég hafði ákveðið að vera ekki áfram í Maryland,“ sagði Haukur sem nú er á leið á sinn fyrsta atvinnumannasamning.
 
Mynd/ Haukur í Marylandbúningnun, skóladagarnir eru að baki í bili, nú tekur atvinnumennskan við í einni af sterkustu deild heims.
 
Fréttir
- Auglýsing -