Fjölnismaðurinn Haukur Helgi Pálsson er staddur í City of Palms í Bandaríkjunum ásamt liðsfélögum sínum í Montverde Academy þar sem liðið tekur þátt í City of Palms Classic mótinu sem er þekkt sem eitt sterkasta mótið í Bandaríkjunum fyrir miðskóla (High School).
Haukur og Montverde riðu á vaðið gegn Greenboro Dudley skólanum þann 19. desember. Montverde hafði þar öruggan sigur 82-65. Haukur Helgi gerði 11 stig í leiknum, tók 8 fráköst og var með 4 stoðsendingar.
Í gær mættust svo Montverde og Westchester þar sem Montverde fór með 62-47 sigur af hólmi og gerði Haukur 3 stig í leiknum, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á þeim 20 mínútum sem hann lék í leiknum. Haukur hefur ekki verið í byrjunarliðinu í þessum tveimur fyrstu leikjum en hefur komið inn sem sjötti maður þar sem hann er með mestan spilatíma í þessum tveimur leikjum að frátöldum þeim sem eru í byrjunarliðinu.
Haukur og félagar eiga leik aftur í kvöld í undanúrslitum þegar þeir mæta Patherson Catholic skólanum. Á morgun verður svo leikið um bronsið og sjálfur úrslitaleikurinn fer fram þar strax á eftir og verða báðir þessir leikir sýndir á sjónvarpsstöðinni ESPN.



