Haukar sigruðu Val með 7 stigum, 67-60, í 2. umferð Dominos deildar kvenna. Bæði töpuðu liðin í fyrsta leik tímabilsins. Valur fyrir nýliðum Njarðvík í Ljónagryfjunni, Haukar fyrir Grindavík í Mustad höllinni. Valur því eina liðið sem er enn án sigurs í deildinni.
Af bekknum
Umdeilanlega besti leikmaður Vals, Guðbjörg Sverrisdóttir, þurfti að sætta sig við að byrja á bekknum í þessum leik. Samkvæmt heimildum hefur hún verið að koma sér af stað aftur eftir meiðsl. Skilaði þó fínu framlagi í dag 7 stig, 2 fráköst og 3 stoðsendingar á 23 mínútum spiluðum.
Þáttaskil
Leikurinn var jafn og spennandi allt fram til loka hans. Það var í raun ekki fyrr en alveg í lok leiksins sem Haukar sigldu eilítið frammúr, eða í eitthvað sem kallast gæti forskot, mesta mun leiksins, 7 stig. Annars var leikurinn í járnum.
Múrsteinar
Bæði lið voru með alveg skelfilega nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna, 6/39. Valur hitti úr 2 af 21 skoti sínu, byrjunarliðið t.a.m. var 0 af 15. Hjá Haukum var það aðeins skárra, 4 skot ofaní af 18.
Prúðar
Leikmenn Vals fengu aðeins 13 villur dæmdar á sig í leiknum. Munaði nokkuð miklu um það að Bergþóra Holton var með 4 og Mia Loyd 3 villur. Restin af liðinu var semsagt með 6 villur í heildina, sem verður að teljast lítið.
Hetjan
Erlendur leikmaður Hauka, Michelle Nicole, fann fjöl sína heldur betur í seinni hálfleiknum. Skoraði í heildina 30 stig í leiknum, en þau komu öll annaðhvort úr óáreittum sniðskotum, eða af vítalínunni. Einnig tók hún 16 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á þeim 35 mínútum sem hún spilaði.
Þung byrjun
Liði Vals hafði á einhverjum stöðum verið spáð fínu gengi vetur. Hafa nú tapað fyrstu tveimur leikjum sínum gegn þeim liðum sem var spáð hvað verstu genginu. Nú má vera að spár og annað í þá áttina eigi sér litlar stoðir í veruleikanum. Þessi veruleiki hlýtur samt sem áður að vera erfiður fyrir þær. Fá Snæfell í heimsókn næst til þess að rétta þetta af.