spot_img
HomeFréttirHaukastúlkur á blússandi siglingu

Haukastúlkur á blússandi siglingu

Haukar mættu Grindavík í 17. umferð Dominosdeildarkvenna í Schenkerhöllinni í kvöld og má segja að Haukastúlkur hafi mætt í leikinn sem hungruð ljón. Þær stigu bensínið í botn í fyrrihálfleik og skildu Grindavík eftir í rykinu og eftirleikurinn auðveldur. Lokatölur 92-67.
 
Grindavík skoruðu fyrstu stig leiksins en þá tók við algjör einstefna Hauka þar sem þær spiluðu mjög stífa vörn og keyrðu á þær við hvert tækifærið. Margrét Rósa Hálfdanardóttir var þar fremst í flokki og skoraði hún 8 stig á fyrstu fjóru mínútum leiksins. Þegar hún kom Haukum í 13-2 þá tók Jón Halldór Eðvaldsson leikhlé. Eftir leikhléið batnaði aðeins leikur Grindavíkur og skoruðu þær þrjár körfur á stuttum tíma. Haukar héldu þó áfram yfirburðum sínum og kafsigldu Grindavík 30-13 þar sem að Margrét Rósa var með 18 stig í 8 af 8 skotum!
 
Sumir gætu sagt að Haukar hafi slakað á klónni í öðrum leikhluta, þær skoruðu ekki eins mikið og gáfu Grindavík fleiri stig en í fyrsta… En það er svo sem hægt að segja ýmislegt. Staðan í hálfleik: 56-29 og yfirburðirnir algjörir.
 
Grindavík skiptu yfir í svæðisvörn í þriðja leikhlutanum og tókst þeim við það hægja á Haukunum. Þetta var mjög jafn leikhluti og endaði hann með aðeins tveggja stiga mun eða 20-18. Allt annað að sjá til Grindavíkur en munurinn alltof mikill þrátt fyrir einn leikhluta til viðbótar.
 
Svona leiki þarf að klára eins og aðra og spilaðist fjórði leikhlutinn þannig hjá báðum liðum. Keppnismaðurinn Jón Halldór var ekki til í þannig spilamennsku og tók leikhlé þar sem að hann krafðist þess af liði sínu að þær myndu vinna einn leikhluta. Grindavíkurstúlkur héldu því áfram að spila körfubolta og varð Jóni að ósk sinni þar sem að Grindavík kláraði leikinn með því að vinna leikhlutann 16-20 en úrslitin voru löngu ráðin.
 
Haukar voru með þrjá leikmenn sem skoruðu 16 eða fleiri stig og merkilegt nokk þá raðast Lele Hardy í þriðja sæti yfir stigahæstu leikmenn Hauka. 
 
 
 
Mynd/ Haukar í hraðaupphlaupi var mjög algeng sjón í leiknum
 
Fréttir
- Auglýsing -