spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild kvennaHaukastelpur ágætar gegn Snæfell.

Haukastelpur ágætar gegn Snæfell.

Haukar tóku á móti Snæfellingum í Ólafshúsi að Ásvöllum í kvöld í 12. umferð Dominosdeildar kvenna. Þær vörðu heimavöllinn vel og þó að leikurinn hafi verið naumur eftir þrjá leikhluta unnu þær örugglega, 101-81.

Heimaliðið tók snemma forystuna en Snæfell var að spila einstaklega slaka vörn framan af. Haukar gengu á lagið og leiddu með 15 stigum eftir fyrsta leikhluta. Snæfellsstúlkur löguðu stöðuna lítillega í öðrum fjórðungnum en þó ekki nóg til að ná muninum niður fyrir 10 stig áður en hálfleikshléið hófst. Staðan 48-37 í hálfleik.

Snæfell mætti reiðubúið í seinni hálfleik og náði með góðri vörn og einbeitingu að koma muninum niður í sex stig fyrir lokaleikhlutann. Gott framlag frá liðsheildinni en þó mest frá Emese Vida gerði að verkum að staðan var 66-60 fyrir lokaleikhlutann.

Haukar fóru aftur að pressa stíft á leikstjórnendur Snæfells í fjórða leikhlutanum og gestirnir úr Stykkishólmi gerðu mistök trekk í trekk. Hafnfirðingar tóku í tvenn aðskilin skipti níu stiga áhlaup sem Hólmarar gátu ekki svarað nægilega vel. Heimastúlkur unnu seinasta leikhlutann því örugglega þannig að lokastaðan varð 101-81 fyrir Haukum.

Lykil-leikmenn

Haukar fengu framlag frá ofboðslega mörgum leikmönnum í kvöld en tvær þeirra stóðu upp úr. Randi Keonsha Brown gældi við þrefalda tvennu, en hún skoraði 24 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Jannetje Guijt, hollenskur leikmaður liðsins átti sömuleiðis frábæran leik, en fyrir utan að spila kæfandi pressuvörn á bakverði Snæfells setti hún öll 9 skot sín fyrir innan þriggja stiga línuna og endaði leikinn með 21 stig.

Hjá Snæfell var Emese Vida mjög góð, en hún lauk leik með 24 stig, 18 fráköst, 4 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 3 varin skot. Framlag hennar í leiknum hljómaði upp á 38 framlagspunkta.

Hvers vegna unnu Haukar?

Vörn Hauka var á köflum alveg frábær en það sem gerði út um leikinn voru öll hraðaupphlaupin og auðveldu körfurnar í lokafjórðungnum sem sigldi sigrinum í höfn fyrir heimaliðið.

Hvað næst?

Haukar munu næst heimsækja topplið Valsstúlkna í Origo-höllina, næsta miðvikudag kl.18:00 á meðan að Snæfellingar heimsækja KR-inga í DHL-höllina sama dag kl.19:15. Þessar viðureignir verða síðustu leikir beggja liða fyrir áramót.

Viðtöl:
Ólöf Helga: Hefðum getað staðið okkur betur.
Gunnlaugur: Vorum sjálfum okkar verstar.

Fréttir
- Auglýsing -