spot_img
HomeFréttirHaukasigur á Ásvöllum(Umfjöllun)

Haukasigur á Ásvöllum(Umfjöllun)

Haukar fengu Hamarsmenn í heimsókn í gærkvöldi í 12. umferð Iceland Express-deildar karla. Fyrir leikinn voru bæði lið jöfn með fimm sigurleiki um miðja deild. Því var búist við spennandi leik jafnra liða og það átti eftir að koma á daginn.
Haukarnir byrjuðu betur og komust yfir strax í byrjun. Heimamenn spiluðu hörkuvörn og voru duglegir að fylgja því eftir með hraðupphlaupum sem gáfu stig. Hamarsmenn voru oft á tíðum í miklum erfiðleikum með að finna skot og alltof oft að sætta sig við mjög erfið skot. Ágúst Björgvinsson hefur án efa verið afar ósáttur með sína menn sem tóku ekki nógu góðar ákvarðarnir og margir boltar töpuðust. Að loknum fyrsta leikhluta leiddu Haukar 23-9.
 
Annar leikhluti var mun jafnari og lið Hamars vaknaði af blundi sínum. Svæðisvörnin var að virka og þeir voru orðnir beittari í öllum aðgerðum. Jafnræði var með liðunum en þau skiptust á körfum. Hamar skoraði sex síðustu stig hálfleiksins og munurinn því aðeins níu stig þegar liðin gengu til búningsherbergja 36-29.
 
Það var lið Hauka sem byrjaði seinni hálfleikinn betur. Þeir skoruð níu fyrstu stigin og Hamarsmenn virtust enn á ný ekki vera í takt við leikinn. Haukar leiddu með 14 stigum eftir þrjá leikhluta 58-44 og allt stefndi í stórsigur Hauka.
 
En fjórði og lokaleikhlutinn var frábær. Hamarsmenn náðu með frábærri vörn að minnka muninn en þeir fóru að spila hærra. Svæðisvörnin þeirra, með hinn stóra og magnaða Ragnar Nathanaelsson í miðjunni, gerði það að verkum að munurinn minnkaði og minnkaði. Hamar breytti stöðunni úr 58-44 í 64-61 á tæpum fjórum og hálfri mínútu m.a. með tveimur þristum frá Andre Dabney. En þá náðu Haukar að skora átta næstu stig leiksins með körfum frá Gerald Robinson, Emil Barja, Sveini Ómari Sveinssyni og Semaj Inge og munurinn orðinn 11 stig 72-61. Það forskot hélst út leikinn þrátt fyrir mikla atlögu frá Hamri. Þeir gáfust ekki upp en Haukaliðið kláraði leikinn. Lokatölur 82-74.
 
Góðan sigur Hauka má þakka góðri vörn þeirra sem þeir spiluðu allan leikinn. Sigurinn kemur Haukum í 5. sætið í töflunni en Hamarsmenn fóru niður í 8. sæti með ósigrinum.
 
Stigahæstur hjá Haukum var Gerald Robinson með 29 stig og 19 fráköst en hann átti mjög góðan dag. Semaj Inge daðrað við þrennuna með 15 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendinum. Emil Barja var einnig mjög góður en hann skoraði 11 stig, tók 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 bolta og stal 3 boltum.
 
Hjá Hamri var Andre Dabney stigahæstur með 28 stig, tók 8 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 5 boltum. Ragnar Nathanaelsson var frábær en hann var með 10 stig, 19 fráköst og 5 varin skot. Sannarlega frábær frammistaða. Kjartan Kárason skoraði 13 stig.
 
 
Myndasafn úr leiknum
 
Umfjöllun: Stefán Már Haraldsson
 
Mynd: Bakverðirnir Óskar Magnússon og Ellert Arnarson í baráttunni í gærkvöldi
 
Fréttir
- Auglýsing -