spot_img
HomeFréttirHaukasigur á Ásvöllum

Haukasigur á Ásvöllum

Leikur Hauka og Ármanns í 1. deild karla í kvöld verður seint sagður hafa verið einn af topp tíu bestu leikjum deildarinnar í vetur. Mikill 1. deildar bragur var á honum þrátt fyrir ágætis tilþrif inn á milli en leikar fór þannig að Haukar unnu „skildusigur” ef svo má að orði komast 99-80.
Leikurinn byrjaði rólega og skiptust liðin á að skora. Haukar komust í 4-0 en Ármenningar voru fljótir að jafna metin 4-4. Haukar skoruðu næstu fimm stig áður en Ármenningar næðu að skora og voru fljótlega eftir það komnir með 10 stiga forystu, 15-5. Leikhlutanum lauk með 11 stiga forystu Hauka 25-14.
 
Allt stefndi í að Haukar ætluðu að gera út um leikinn í öðrum leikhluta. Ármenningar virtust hreinlega ekki með og Haukar gengu á lagið. Jafnt og þétt juku Haukar forystuna og með 18-5 sigri í leikhlutanum leiddu Haukar með 24 stigum í hálfleik.
 
Áfram héldu Haukar að keyra upp muninn og um miðbik leikhlutans leiddu þeir með 33 stigum en það var mesti munur sem Haukar náðu. Ármenningar náðu að halda í við Haukaliðið og vörðust því að missa það enn frekar frá sér. Haukar leiddu með 29 stigum eftir leikhlutan og ekki von á öðru en það stefndi í stórsigur Hafnarfjarðarliðsins.
 
Ármenningar vöknuðu loksins af allt of löngum fegrunarblundi og náðu að minnka muninn jafnt og þétt. Á þriðju mínútu fjórða leikhluta var lið Ármanns búið að minnka muninn í 24 stig og Haukar voru í sókn. Helgi Einarsson í Haukum fór upp að körfu Ármenninga en sniðskot hans klikkaði. Þorsteinn Húnfjörð tók varnarfrákast og á meðan hann var að verja boltann smellti hann olnboganum í höfuð Helga sem varðist Þorsteini. Þorsteinn fékk umsvifalaust brottrekstrarvillu en Helgi lá óvígur eftir og tafðist leikurinn um einar 15 mínútur við þetta. Mikil óánægja braust út hjá þjálfurum Ármanns við brottrekstur Þorsteins og eftir þras, aðhlynningar og innáskiptingar hélt leikurinn áfram. Sveinn Ómar Sveinsson fór á línuna í stað Helga og undirstrikaði slaka vítahittni Haukaliðsins í kvöld með því að setja annað skotið niður.
 
Við svona atvik eiga lið það til að brottna niður en það gerðu Ármenningar aldeilis ekki. Þeir börðust áfram og minnkuðu mun Haukanna enn frekar og þar fór fremstu meðal jafningja Halldór Kristmannsson sem setti niður einar sex þriggja stigakörfur úr sex tilraunum í seinni hálfleik og komu fjórar af þeim í leikhlutanum. Leikmenn Ármanns náðu að minnka muninn í 16 stig en minni varð munurinn ekki og Haukar unnu á endanum 19 stiga sigur 99-80.
 
Stigahæstur í liði Hauka var Semaj Inge með 34 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Inge sýndi ótrúlega takta á tímum og átti hann klárlega körfu leiksins þegar hann tróð viðstöðulaust eftir sendingu frá Sævari Haraldssyni.
Á eftir Inge í stigaskori kom Helgi Einarsson en hann var með 14 stig og 8 fráköst.
 
Hjá Ármanni var Halldór Kristmannsson með 25 stig og 3 fráköst og þeir Hermann Maggyarson og Daði Grétarsson með 13 stig hvor.
 
Fréttir
- Auglýsing -