spot_img
HomeFréttirHaukarnir halda áfram flugi: Lögðu Fjölni í Grafarvogi

Haukarnir halda áfram flugi: Lögðu Fjölni í Grafarvogi

Haukar eru komnir á flug í Iceland Express-deild karla en þeir unnu sinn annan sigur í röð í kvöld þegar þeir heimsóttu Fjölni í Grafarvog. Haukarnir byrjuðu leikinn frábærlega og náðu góðu forskoti en með frábærri baráttu og skynsömum leik náðu heimamenn að gera lokamínúturnar spennandi.
Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem hófu leikinn af miklum krafti og ljóst að sigur þeirra á föstudagskvöld gegn Keflavík veitti þeim mikið sjálfstraust. Fyrstu fimm stigin komu frá Haukum en þá kom karfa frá Jóni Sverrissyni en næstu átta stigin voru frá Haukum og því var staðan orðin 2-13 eftir aðeins þrjár og hálfa mínútu. Haukarnir keyrðu hraðann upp og skoruðu auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum. Fjölnismenn virtust ekki vera tilbúnir í upphafi og Haukarnir gengu á lagið. Helgi Björn Einarsson var með sex af þessum 13 stigum Hauka.
 
Fjölnismenn náðu að minnka muninn með tveimur vítaskotum og meira jafnvægi komst í leikinn. Aðeins losnaði um Nathan Walkup í lok leikhlutans en hann tróð tvisvar sinnum með miklum tilþrifum á stuttu tímabili og vörn Hauka var hriplek. Síðasta karfa leikhlutans kom frá Arnþóri Frey Guðmundssyni þegar hann negldi þrist um leið og flautan gall og minnkaði muninn í 13 stig og staðan 14-27 eftir fyrsta leikhluta.
 
Fjölnismenn komust betur inn í leikinn í öðrum leikhluta. Þeir stoppuðu hraðar sóknir Hauka og fóru að skora reglulega. Þrátt fyrir það náðu Haukar að auka muninn í leikhlutanum og leiddu með 19 stigum í hálfleik 27-46.
 
Sóknarframlag Fjölnismanna í fyrri hálfleik kom mest frá Nathan Walkup og Calvin O´Neal á meðan Haukarnir fengu framlag frá fleiri leikmönnum. Christopher Smith var sterkur í fyrri hálfleik hjá Haukum en Pétur Guðmundsson notaði 11 leikmenn í fyrri hálfleik hjá Haukum á meðan Örvar Kristjánsson, þjálfari Fjölnis, notaði aðeins sjö en meiðsli eru að herja á herbúðum Fjölnismanna.
 
Þriðji leikhluti var keimlíkur öðrum leikhluta. En að þessu sinni var það Fjölnis sem minnkaði muninn en þó ekki um mörg stig. En þeir náðu að halda lífi í leiknum og leyfðu Haukunum aldrei að stinga sig af og gáfu sjálfum sér þ.a.l. tækifæri til að taka leikinn. Staðan eftir leikhlutann var 46-61.
 
Það var mikill kraftur í Fjölnisliðinu í upphafi fjórða leikhluta og fóru þeir að saxa á forskot Haukanna. Hjalti Vilhjálmsson átti fyrstu körfu leikhlutans sem var glæsileg flautuþristur en hann sleppti boltanum rétt áður en skotklukkan rann út og hann setti tóninn fyrir leikhlutann. Næstu körfu leiksins skoraði Calvin O´Neal úr vítum og munurinn því orðinn 10 stig 51-61 og leikmenn Hauka voru ekki að að spila af sömu yfirvegum og þeir voru að gera fyrr í leiknum. Haukur Óskarsson róaði aðeins taugar Haukamanna þegar hann smellti þrist langt utan af kanti og minnkaði aðeins pressuna á Haukunum.
 
Fjölnir hélt áfram að keyra á Hauka og reyna ná muninum niður en Haukarnir náðu ávallt að bægja heimamönnum frá en munurinn var að minnka. Fjölnir náði að gera leikinn spennandi á síðustu mínútunum og fóru með muninn undir 10 stig. Þeir gátu minnkað muninn í fjögur stig þegar 60 sekúndur voru eftir en þriggja-stiga skot Calvin O´Neals geigaði. Haukarnir fóru yfir og tóku snemmbúið skot en Örn Sigurðarson náði sóknarfrákastinu og tróð með tilþrifum. Fór munurinn þá upp í níu stig og sigur Hauka að fæðast en þá voru aðeins um 40 sekúndur eftir. Haukarnir héldu þetta út og unnu sinn annan sigur í röð en aðeins sinn fjórða sigur í vetur í deildinni. Lokatölur 68-79.
 
Hjá Haukum var Emil Barja stigahæstur með 16 stig en sóknarframlag Hauka dreifðist jafnt og margir leikmenn lögðu lóð á vogarskálarnar. Chris Smith var öflugur í fyrri hálfleik en Örn Sigurðarson var frábær í lokin fyrir Hauka og setti niður tvær af þremur síðustu körfum Hauka sem innsiglaði sigurinn.
 
Hjá Fjölni var Calvin O´Neal stigahæstur með 20 stig en hann var sjóðandi í seinni hálfleik. Nathan Walkup var með 17 stig og 15 fráköst og Arnþór Guðmundsson var með 14 stig.
 
Heildarskor:
 
Fjölnir-Haukar 68-79 (14-27, 13-19, 19-15, 22-18)
 
Fjölnir: Calvin O’Neal 20/7 fráköst, Nathan Walkup 17/15 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 14, Jón Sverrisson 8/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6, Hjalti Vilhjálmsson 3, Gústav Davíðsson 0, Haukur Sverrisson 0, Tómas Daði Bessason 0, Trausti Eiríksson 0, Halldór Steingrímsson 0.
 
Haukar: Emil Barja 16/4 fráköst, Hayward Fain 14/13 fráköst, Örn Sigurðarson 12/5 fráköst, Christopher Smith 11/10 fráköst, Helgi Björn Einarsson 10/7 fráköst, Steinar Aronsson 5, Alik Joseph-Pauline 4, Davíð Páll Hermannsson 4, Haukur Óskarsson 3, Óskar Ingi Magnússon 0, Guðmundur Kári Sævarsson 0, Marel Örn Guðlaugsson 0.

Punktar:
-Fimm troðslur voru í leiknum. Nathan Walkup átti þrjár þeirra. Örn Sigurðarson og Hayward Fain áttu hinar tvær.
-Fimm leikmenn Hauka skoruðu 10 stig eða meira í leiknum.
-Pétur Guðmundsson, þjálfari Hauka, notaði 11 leikmenn í fyrri hálfleik.
-Calvin O´Neal spilaði allar 40 mínútur leiksins. Eini leikmaðurinn sem gerði það.
 
Byrjunarliðin:
 
Fjölnir: Calvin O´Neal, Arnþór Guðmundsson, Jón Sverrisson, Trausti Eiríksson og Nathan Walkup.
 
Haukar: Alik Joseph-Pauline, Emil Barja, Hayward Fain, Helgi Björn Einarsson og Christopher Smith.


Myndasafn úr leiknum eftir Björn Ingvarsson.

Mynd: Helgi Björn Einarsson var drjúgur fyrir Hauka í kvöld – Björn Ingvarsson
 
SMH
 
 
Fréttir
- Auglýsing -