spot_img
HomeBikarkeppniHaukar VÍS bikarmeistarar kvenna 2023

Haukar VÍS bikarmeistarar kvenna 2023

Haukar lögðu Keflavík í dag í úrslitaleik VÍS bikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni. Bikartitillinn er sá þriðji sem félagið vinnur í röð, en þær eru fyrstar til þess að ná því afreki á þessari öld.

Fyrir leiks

Keflavík er lang sigursælasta lið keppninnar frá upphafi með fimmtán titla, en síðast unnu þær bikarmeistaratitilinn tímabilið 2017-18. Haukar hafa unnið keppnina síðastliðin tvö ár og eru í þriðja sæti meðal allra félaga með átta bikartitla, en KR hefur unnið hann næst oftast, í tíu skipti.

Bæði lið áttu nokkuð einfaldan dag á leið sinni í gegnum undanúrslit keppninnar nú fyrir helgi. Keflavík lagði Stjörnuna og Haukar báru sigurorð af Snæfell.

Í deildinni höfðu Keflavík og Haukar mæst í tvígang þar sem að Keflavík hafði haft sigur í bæði skiptin, en þær eru í efsta sæti deildarinnar á meðan að Haukar eru í öðru sætinu.

Gangur leiks

Það voru bikarmeistarar Hauka sem byrjuðu leik dagsins betur. Lítið virðist ganga sóknarlega hjá Keflavík á meðan að skotin detta hjá Haukum. Í stöðunni 10-3 tekur Keflavík leikhlé og mæta þær aðeins áræðnari til leiks eftir það, en Haukar ná þó aðeins að halda áfram að bæta við forskot sitt og eru 11 stigum yfir eftir fyrsta fjórðung, 23-14. Tinna Guðrún Alexandersdóttir leikmaður Hauka frábær á þessum upphafsmínútum leiksins með 10 stig í fyrsta leikhlutanum.

Haukar halda í forystuna í upphafi annars leikhlutans þrátt fyrir að Daniela Wallen sé komin vel af stað sóknarlega fyrir Keflavík. Leikurinn er svo í miklu jafnvægi fram að hálfleik, þar sem að Haukarhanga á tíu stiga forskoti inn til búningsherbergja í hálfleik, 45-35. Um miðjan fjórðunginn meiðist Eva Margrét Kristjánsdóttir lykilleikmaður Hauka á höfði og þarf að fara af velli. Haukar eru þó nokkuð snöggir að gera að sárum hennar og er hún komin aftur á bekk þeirra áður en hálfleikurinn var á enda.

Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 22 stig á meðan að fyrir Hauka var Sólrún Inga Gísladóttir með 12 stig.

Haukar halda áfram ótrúlegum skotleik sínum í upphafi seinni hálfleiksins, en þegar sá þriðji er um það bil hálfnaður eru þær 9 af 13 úr djúpinu og staðan 59-46. Undir lokin ná þær svo enn að bæta við forystu sína og eru 16 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 67-51.

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum eftir fyrstu þrjá leikhlutana. Hjá Haukum voru Keira Robinson, Eva Margrét Kristjánsdóttir og Elísabeth Ýr Ægisdóttir allar komnar með þrjár villur líkt og Karina Demislavova leikmaður Keflavíkur.

Keflavík hefði þurft að ná einhverskonar áhlaupi í upphafi fjórða leikhlutans til þess að eiga möguleika á að komast aftur inn í leikinn. Því ná þær hinsvegar alls ekki. Sterk vörn Hauka heldur ennþá og á sóknarhelmingi vallarins halda skotin áfram að detta fyrir þær. Þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka er leikurinn meira en minna búinn, Haukar 22 stigum yfir, 76-54. Undir lokin sigla þær svo merkilega öruggum sigur í höfn, 94-66.

Atkvæðamestar

Best í liði Hauka í dag var Sólrún Inga Gísladóttir með 20 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Keira Robinson með 22 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Keflavík var Daniela Wallen lang atkvæðamest með 30 stig og 16 fráköst. Þá bættu Birna Valgerður Benónýsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir við 10 stigum hvor.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -