spot_img
HomeBikarkeppniHaukar VÍS bikarmeistarar í 12. flokki kvenna

Haukar VÍS bikarmeistarar í 12. flokki kvenna

Haukar lögðu Aþenu í kvöld í VÍS bikarúrslitaleik 12. flokks kvenna, 74-60.

Fyrir leik

Efstar í deildarkeppni 12. flokksins er Fjölnir með átta sigra, en ekki langt undan eru Aþena og Þór/Hamar í 2.-3. sætinu með sjö sigra það sem af er tímabili. Haukar eru hinsvegar í 6.-7. sæti deildarinnar með fjóra sigurleiki líkt og Njarðvík. Liðin hafa í tvígang áður mæst í vetur og hefur Aþena haft sigur í bæði skipti nokkuð örugglega, nú síðast þann 6. nóvember, 59-79.

Í undanúrslitum keppninnar lagði Aþena lið Fjölnis, 61-54 og Haukar unnu Þór/Hamar, 75-54.

Gangur leiks

Leikurinn er í nokkru jafnvægi á upphafsmínútunum, en eftir fimm mínútna leik leiðir Aþena með einu stigi, 7-8. Liðin skiptast á körfum út fyrsta leikhlutann og má varla sjá á milli þeirra. Með góðu sniðskoti Ásu Lind Wolfram undir lok þess fyrsta hefur Aþena þó forystuna inn í annan fjórðung, 16-18. Í öðrum leikhlutanum er komið að Haukum að vera skrefinu á undan. Munaði þó ekki miklu, mest ná þær fimm stiga forskoti í leikhlutanum, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru Haukar tveimur stigum yfir, 37-35.

Stigahæst fyrir Aþenu í fyrri hálfleiknum var Elektra Mjöll Kubrzeniecka með 12 stig á meðan að Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir var komin með 11 stig fyrir Hauka.

Aþena byrjar seinni hálfleikinn af miklum krafti. Setja nokkur skot og ná að miklu leyti að stoppa varnarlega. Haukar gera þó vel að missa þær ekki of langt frá sér, staðan 45-48 þegar um fimm mínútur lifa af þriðja fjórðungnum. Haukar þá að snúa taflinu sér í vil og eru þær sem leiða út leikhlutann, sem endar með þriggja stiga forystu þeirra, 53-50.

Undir lok þriðja leikhlutans hafði lykilleikmaður Aþenu, Darina Andriivna Khomenska, fengið sína fjórðu villu, en hún hafði verið frábær fram að þessu í leiknum. Framlagshæsti leikmaður Aþenu með 15 stig og 11 fráköst. Hjá Haukum voru ekki teljandi villuvandræði, þó var Kristín Pétursdóttir komin með þrjár villur.

Haukar opna lokaleikhlutann á sterku 9-2 áhlaupi og eru því komnar með 10 stiga forystu þegar tæpar 7 mínútur eru til leiksloka, 62-52. Því forskoti hanga Haukar á fram á lokamínúturnar, en þegar tæpar 3 mínútur eru eftir eru þær enn 12 stigum á undan, 68-56. Undir lokin gera þær svo vel að sigla nokkuð öruggum 14 stiga sigur í höfn, 74-60.

Atkvæðamestar

Lykilleikmaður Hauka í leiknum var Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir með 25 stig, 7 fráköst og 5 stolna bolta. Þá bætti Dagbjört Gyða Hálfdanardóttir við 16 stigum og 9 fráköstum.

Fyrir Aþenu var Ása Lind Wolfram atkvæðamest með 14 stig, 19 fráköst og 2 varin skot. Henni næstar voru Darina Andriivna Khomenska með 17 stig, 11 fráköst og Elektra Mjöll Kubrzeniecka með 21 stig og 7 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Væntanlegt / Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -