spot_img
HomeFréttirHaukar vildu þetta meira og eru komnar í 1-0

Haukar vildu þetta meira og eru komnar í 1-0

Haukar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Keflavík, 54-63, í Toyota-höllinni í dag og eru því komnar 1-0 yfir í rimmunni í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna. Þær voru með forystuna nánast allan leikinn þar sem Tierny Jenkins var í bílstjórasætinu og spilað frábærlega í kvöld með tröllatvennu, 27 stig og 20 fráköst. Jence Ann Rhodes átti einnig flottan leik, 14 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar og stjórnaði leik Haukanna eins og herforingi. Hjá Keflavík skilaði Jaleesa Butler tvennu, 23 stig og 12 fráköst.
 
 
Í upphafi leiks voru bæði liðin að spila mjög stífa vörn og einkenndist leikurinn af mikilli baráttu. Greinilegt var að Keflavík komu tilbúnar til leiks og voru að spila vel á upphafs mínútunum. Þær voru fljótlega komnar í 8-2 og virtust ætla að stinga Haukana af miðað við hvernig þær spiluðu á þessum mínútum. En eftir nokkrar mínútur vöknuðu Haukarnir til lífs og um miðjan leikhlutann jafna þær 12-12. Um mínútu seinna eru þær komnar yfir 12-14 og gefa þá forystu ekki af hendi allan leikinn. Þær leiddu 18-22 eftir fyrsta leikhluta. Butler var að spila vel og komin með 10 stig fyrir Keflavík. Hjá Haukum var Jenkins komin með 9 stig.
 
Annar leikhlutinn byrjaði með mikilli baráttu beggja liða. Það var ekki mikið að detta ofan í körfurnar á fyrstu mínútum leikhlutans en eftir fjögurra mínútna leik var staðan 22-27 fyrir Hauka. Á þessum tíma fær Pálína Gunnlaugsdóttir sína þriðju villu og sest á tréverkið það sem eftir lifir af leikhlutanum, ekki það besta í stöðunni fyrir Keflavík. Þær minnka muninn stuttu seinna í tvö stig, 25-27, en nær komast þær ekki í þessum leikhluta því Haukar gáfu aftur í og juku bilið fyrir hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 27-35 og Haukar að spila nokkuð vel síðustu mínúturnar. Jenkins hélt áfram að spila vel fyrir Haukana og var komin með 16 og slatta af fráköstum. Hjá Keflavík var Butler stighæst með 14 stig.
 
Leikurinn hélt áfram á svipuðum nótum í þriðja leikhluta eins og hann hafði verið í fyrri hálfleik. Keflavík reyndi að sækja á en Haukarnir voru alltaf skrefinu á undan og hélt þeim í ágætri fjarlægð framan af leikhlutanum. Haukarnir börðust vel undir sinni eigin körfu og uppskáru þannig hvert sóknarfrákastið eftir öðru. Um miðjan leikhlutann fara Keflavík að sækja vel á Haukana og ná að minnka muninn í 3 stig, 43-46, þegar um 30 sekúndur eru eftir af leikhlutanum og virðast vera komnar á skrið. Rétt áður en leikhluturinn rennur út eiga Haukar skot að körfunni. Skotið geigar en Jenkins tekur einn eitt sóknarfrákastið og nælir í eitt stykki „and1“ þegar flautan glymur. Hún eykur síðan forskotið á línunni í 6 stig, 43-49, áður en farið er í síðasta leikhlutann. Hjá Keflavík er Butler komin með 18 stig og Pálína með 11 stig. En hjá Haukum er Jenkins komin með 21 stig og Rhodes með 10 stig.
 
Í upphafi fjórða leikhluta voru Haukarnir að brjóta niður svæðisvörn Keflavíkur hvað eftir annað og spiluðu mjög vel. Um miðjan leikhlutann var staðan 49-57 og Haukarnir voru ekkert á því að gefa forskotið eftir. Þær voru að nýta sóknirnar sínar mjög vel með því að láta skotklukkuna líða fram að síðustu sekúndum áður en þær tóku skot að körfunni. Þær komust mest í 12 stiga forystu, 49-61, með Jenkins í bílstjórasætinu. Leikurinn endaði síðan 54-63 fyrir Haukana og þær komnar í 1-0 í rimmunni eins og áður segir. Það var greinilegt að Haukarnir vildu sigurinn miklu meira heldur en Keflavík í dag. Baráttan og liðsheildin var frábær á tímum, meðal annars tóku þær 20 sóknarfráköst í dag enda börðust þær fyrir hverjum lausum bolta. Keflavík barðist vel á tímum en það vantaði að þær væru að gera þetta meira saman og svo virtust þær algjörlega andlausar, vantaði algjörlega „nennið“ .
 
Hjá Keflavík var Butler stigahæst með 23 stig, 12 fráköst og 4 varin skot. Pálína barðist eins og henni einni er lagið allan leikinn, en það vantar fleiri með henni. Hún endaði leikinn með 11 stig, 5 fráköst og 4 stolna.
Hjá Haukum var Jenkins að spila frábærlega, hörku leikmaður þarna á ferð. Hún endaði leikinn með 27 stig, 20 fráköst (10 sóknar) og 4 stolna. Rhodes stýrði leik sinna manna eins og herforingi og endaði leikinn með 14 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.

Mynd/ Eyþór Sæm. www.vf.is – Jenkins sækir að körfu Keflavíkur í Toyota-höllinni í dag.
Umfjöllun/ Rannveig Kristín Randversdóttir – [email protected] 
Fréttir
- Auglýsing -