spot_img
HomeFréttirHaukar urðu fyrir KR lestinni

Haukar urðu fyrir KR lestinni

Rauðklæddir Hafnfirðingar kíktu í heimsókn til KR í kvöld, leikurinn var í fjórtándu umferð Dominos deildar karla. Gestirnir höfðu fyrir leikinn tapað þrem leikjum í röð og mátti ekki við því að bæta þeim fjórða í safnið. KR tapaði einnig síðast þegar þeir spiluðu í DHL-höllinni. Því höfðu bæði lið mikið að sýna og mátti því búast við stórgóðum körfuboltaleik. Allar væntingar um spennandi leik fuku hressilega útum gluggan strax á upphafsmínútunum því KR gjörsigraði Hauka í leiknum.

 

Einungis eitt lið mætti á völlinn í byrjun. KR gjörsamlega saltaði Hauka á fyrstu þrem mínútum leiksins. Pressuvörn KR var frábær og fór illa í líkama og sál hafnfirðinga. Á meðan fékk KR að gera það sem þeir vildu sóknarlega og keyrðu hraðan upp. Annar eins hraði hefur varla sést í deildinni og boltahreyfing KR stórbrotin. Þetta skilaði sér í góðu skotvali sem sýnir sig best á 65% skotnýtingu KR í fyrsta leikhluta. Haukar reyndu svæðisvörn sem leit ekkert betur út.

Söltun er rétta orðið yfir fyrsta leikhluta enda staðan 30-11 að honum loknum. Pavel Ermolinskji var frábær en oft á tíðum endaði Finnur Atli á að dekka hann og réð ekkert við Pavel. Það hjálpaði gestunum ekki neitt að bæði Emil Barja og Brandon Mobley fengu þriðju villu sína þegar einungis sex mínútur voru liðnar og því komnir í allskyns villuvandræði.

 

Sóknarleikur Hauka varð ögn betri í öðrum leikhluta en varnarleikurinn enn úti á þekju. Það var í raun ekki vörn Hauka að þakka að munurinn varð ekki meira heldur byrjaði KR að brenna af opnum skotum. Emil Barja fékk sína fjórðu villu strax í leikhlutanum og því ljóst að hann þyrfti að eiga gott stefnumót við bekkinn.

Þrátt fyrir að Hauka næði að minnka ögn muninn þá þreytist ekki að hrósa sóknarleik KR, flæðið var frábært og alltaf leit af auka sendingu. Haukar unnu annan leikhlutan en holan sem þeir grófu sér í þeim fyrsta var það djup að forysta KR var enn afgerandi í hálfleik 47-32

 

 

Haukar ákváðu þá eftir allt að mæta til leiks í seinni hálfleik, 9-2 áhlaup þeirra um miðbik þriðja leikhluta kom muninum niður í níu stig. Þá fyrst fór Mobley að sína sig aðeins en hann virtist vera skíthræddur við Craion undir körfunni og keyrði ekkert á hann.

Andlega var KR einfaldlega mun sterkari því þeir náðu alltaf að svara og halda gestunum frá sér. Alltaf þegar Haukar komu sér í séns á að búa til leik hættu þeir að spila vörn og gáfu fáránlega einfaldar körfur. Darri Hilmarsson fékk sína fimmtu villu og því brottvísun í þriðja leikhluta en það skipti litlu fyrir KR því staðan eftir þriðja leikhluta var 64-51 þeim í vil.

 

KR lestin mallaði áfram og kom muninum vel yfir tuttugu stigin. Pavel var áfram lestarstjóri með sinn hundtrygga aðstoðarmann Ægi Þór. Haukar reyndu aðeins að malda í móinn enn virtust aldrei hafa nægilega trú á verkefninu. Lokastaðan 96-66 KR í vil og þeir halda áfram barátunni um efsta sæti deildarinnar.

 

 

Spilamennska KR var frábær í leiknum á löngum köflum og var munurinn síst of lítill. Andlega var Haukar alltof veikir og þurfti ofboðslega lítið til að brjóta þá. Haukar töpuðu á sama tíma í fyrra fimm leikjum í röð í deildinni og stimpluðu sig þannig úr toppbaráttunni. Sagan virðist vera að endurtaka sig en tekið skal fram að þeir enduðu deildina vel eða í þriðja sæti á síðasta tímabili.

 

Liðsheildin og breiddin var það sem gerði þennan sigur KR, allir lögðu í púkk og spiluðu fyrir næsta mann. Stærstan part leiksins var liðið sóknarlega framúrskarandi og þegar þú heldur andstæðingnum í 66 stigum er vörnin að gera eitthvað rétt. Það var því hreinlega eins og Haukar hefðu undirbúið sig undir að spila við annað lið því þeir komu svo innilega vanstillitir í leikinn og öll varnarafbrigði KR virtust koma á óvart.

 

Pavel Ermolinskji var lang leikmaður vallarins í dag með 11 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar, semsagt það vantaði eina stoðsendingu í þrefalda tvennu. Finnur þjálfari tók Pavel útaf þegar þrjár mínútur voru eftir og fær skömm í hattinn, þess utan setti Finnur þennan leik nánast fullkomlega upp.

Ægir var líka frábær með 9 stig og 10 stoðsendingar. Mike Craion átti rólegan dag og fékk að sitja nokkuð á bekknum, sem er fyndið að segja frá því hann var samt sem áður stigahæstur með 17 stig.

 

Hjá Haukum var fátt um fína drætti en Kári Jónsson ar stigahæstur með 15 stig, sá eini með lífsmark var Kristinn Marínósson sem kom með sjaldséða baráttu og elju í leikinn. Emil Barja var jaa, skulum ekkert skafa af því, hann átti herfilegan leik. 0 stig, 2 fráköst, 2 stoðsendingar, 5 stoðsendingar og 5 villur. Emil var stigalaus í leiknum og er það í fyrsta skipti síðan í tapleik gegn Keflavík þann 28. nóv 2013. Emil getur gert hundrað sinnum betur og köllum við eftir því að hann síni sitt rétta andlit.

Það er ekki Go fyrr en Einar Skarp segir Go!

Tölfræði leiksins

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj

Myndir / [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -