Haukar tóku á móti Keflavík í Ólafssal í kvöld í þrettándu umferð Íslandsmótsins í Bónusdeild kvenna. Haukar náðu snemma forystunni, létu hana aldrei af hendi og unnu að lokum 94-73 í leik sem var aldrei sérlega spennandi.
Gangur leiks
Heimastúlkur skoruðu fyrstu körfu leiksins og Keflvíkingar svöruðu fyrir sig í næstu sókn þar á eftir. Þetta voru einu skipti leiksins þar sem staðan var jöfn, 0:0 og 2:2. Eftir þetta skildu Haukar gestina eftir og skoruðu 27 fleiri stig í fyrsta leikhlutanum gegn aðeins 12 hjá Keflavík. Staðan 29-14 eftir tíu mínútur spilaðar.
Í öðrum leikhlutanum slakaði aðeins á stigaskorinu hjá heimakonum en Keflavík gat einhvern veginn ekki gefið í og brúað bilið. Það komu langir kaflar þar sem hvorugt liðið gat skorað og þá hefðu gestirnir þurft að stíga á bensíngjöfina en allt kom fyrir ekki. Haukar skoruðu ekki nema 17 stig í leikhlutanum en það dugði gegn 14 stigum Keflavíkur svo staðan í hálfleik var 46-28.
Fyrstu fimm mínútur seinni hálfleiksins var lítið sem gaf til kynna að Keflavíkurstelpur ætluðu sér að gera sig gildandi í leiknum. Haukar höfðu meiri orku og voru léttleikandi sem sást á góðum sendingum og vel útfærðum leikfléttum sem gestirnir gátu illa varist. Í stöðunni 61-36 þá sneru Keflvíkingar loks dæminu við og fóru að saxa á. Á næstu tveimur mínútum minnkuðu þær muninn í 61-46 og Emil Barja, þjálfari Hauka, tók leikhlé.
Haukar svöruðu fyrir sig í fyrstu sókn eftir leikhléið en Keflavík lét ekki undan og gat áfram minnkað muninn aðeins fyrir lokaleikhlutann. Staðan 65-54 og tíu mínútur eftir til leiksloka.
Keflavík gekk áfram á lagið og náðu strax á fyrstu mínútu lokafjórðungsins muninum niður fyrir 10 stig. Haukar tóku þá aðeins við sér og gátu haldið muninum í kringum 10 stig næstu fimm mínúturnar. Þá virtust Keflavík aftur missa þráðinn og Haukar juku forskot sitt hægt og rólega fram á síðustu mínúturnar. Leiknum lauk 94-73 með nokkuð öruggum sigri Hauka.
Tölfræði leiksins
Vendipunkturinn
Leikurinn var ekki sérlega jafn eða spennandi svo kannski er lítið hægt að segja um vendipunkta, en miðað við tölfræðina og hvernig leikurinn spilaðist virðist Keflavík hafa gengið illa þegar Sofie Tryggedsson var inn á (byrjun leiks og byrjun seinni hálfleiks) og þegar Thelmu Dís Ágústsdóttur var skipt aftur inn í stöðunni 73-65 í fjórða leikhluta þá fór liðið skyndilega að hiksta aftur.
Tölfræðin bakkar þetta að einhverju leyti upp, en þær stöllur voru báðar stigalausar og með mjög slaka plús/mínus-tölfræði (-23 stig með Sofie inn á og -29 með Thelmu inn á).
Atkvæðamestar
Hjá Haukum var Krystal-Jade Freeman atkvæðamest með 19 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar. Amandine Toi var stigahæst með 22 stig og tók þar að auki 8 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Raunar var nærri allt byrjunarlið Íslandsmeistaranna mjög öflugt, allar með 16 í framlag eða meira.
Í Keflavíkurliðinu dróg Sara Rún Hinriksdóttir dróg vagninn með 27 stig en fékk kannski ekki nægilega mikla aðstoð. Anna Ingunn Svansdóttir með 16 stig, Keishana Washington með 15 stig og Emelía Ósk með 11 stig. Anna Lára lagði síðan til 4 stig en engin önnur í liðinu komst á blað.
Kjarninn
Haukar eru núna komnar upp að hlið Keflavíkur í töflunni og hafa fimm leiki til að setja Keflavík niður fyrir sig áður en deildinni er skipt í A og B hluta. Keflavík þarf aðeins að skoða sín mál ef þau vilja ekki vera skilin eftir í B-hlutanum.



