spot_img
HomeFréttirHaukar tryggðu Domino’s að ári

Haukar tryggðu Domino’s að ári

 

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Haukum í Domino’s deild karla. Stjörnumenn gátu með sigri tryggt sér úrslitaleik gegn KR um deildarmeistaratitilinn, á meðan Haukar þurftu lífsnauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um sæti í Domino’s deildinni að ári. Eftir hörkuleik fyrstu þrjá leikhlutana fór svo að gestirnir úr Hafnarfirði hreinlega völtuðu yfir heimamenn. Stjörnumenn litu einfaldlega út fyrir að vera ráðvilltir í lokafjórðungnum og grimmir Haukar nýttu sér það heldur betur. Fór svo að gestirnir unnu afar verðskuldaðan níu stiga sigur, 78-87, en vegna úrslita í öðrum leikjum þýðir sigurinn að Haukar munu áfram spila í Domino’s deildinni að ári.

 

 

Lykillinn

Það er gömul klisja í íþróttum að segja að lið hafi viljað sigurinn meira en það átti svo sannarlega við í kvöld. Haukar gáfu einfaldlega allt í síðasta leikhlutann og uppskáru út frá því.

 

Svig eða brun?

Mikið hefur verið rætt um skíðaferð Ívars Ásgrímssonar þjálfara Hauka í síðustu viku. Að lokum eru það þó Haukar sem eiga síðasta orðið í þeirri umræðu með tveimur sterkum sigrum sem tryggja sæti þeirra í deildinni.

 

Hetjan

Haukur Óskarsson fær þessa nafnbót í kvöld, en Haukur var frábær í liði gestanna með 19 stig og fjóra þrista, sem allir virtust koma á mikilvægum augnablikum auk þess sem baráttugleði Hauks smitaði út frá sér bæði innan vallar sem utan.

 

Tölfræðin

2017-2018. Haukar verða í Domino’s deildinni á næsta tímabili.

 

Framhaldið

Stjörnumenn eiga ekki lengur möguleika á deildarmeistaratitlinum en Garðbæingar spila síðasta leik sinn í deildakeppninni næstkomandi fimmtudag gegn deildarmeisturum KR. Haukar munu hins vegar ekki hafa að neinu að keppa í síðasta leik sínum á tímabilinu gegn Tindastóli sama kvöld, en Haukar eiga ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni, þrátt fyrir frábæran sigur í kvöld.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -