Haukar sigruðu Snæfell fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í DB Schenker höllinn, með 65 stigum gegn 64. Leikurinn var sá fyrsti í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil þessa árs. Með sigrinum komast Haukar í 1-0 forystu í einvíginu, en það lið sem er fyrst til að vinna 3 leiki verður meistari.
Bæði þessi lið einstaklega vel mönnuð. Snæfell bikarmeistarar þessa árs og ríkjandi Íslandsmeistarar síðastliðinna tveggja tímabila. Haukar hinsvegar með besta lið deildarkeppni þessa árs.
Einvígið opnaði leikmaður Snæfells, Haiden Denise Palmer, með laglegu skoti nálægt toppi lykilsins. Þessar fyrstu mínútur virtist ljóst að ef sem fram héldi, myndi sókn Snæfells standa eða falla með frammistöðu hennar.
Eins og í góðum titilbardaga þreifuðu liðin af mikilli varkárni í byrjun þessarar fyrstu lotu. Staðan var 4-4 þegar að sá fyrsti var hálfnaður. Upp úr því tóku heimastúlkur á rás og náðu að klára hlutann með 7 stiga forskoti, 13-6.
Í öðrum leikhlutanum virtist Snæfell, enn, vera hálf ráðalaust gegn sterkri vörn Hauka. Taka leikhlé þegar 2 mínútur eru liðnar og koma aðeins betri til leiks aftur. Ná snöggu 5-0 áhlaupi, sem virtist efnilegt, en var svo ekki söguna meir. Haukar settu í fluggírinn, tóku öll völd á vellinum og fóru að lokum með þægilega 16 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 33-17.
Atkvæðamest fyrir heimastúlkur var Helena Sverrisdóttir með 13 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir gestina var það Haiden Denise Palmer sem dróg vagninn með 6 stig og 11 fráköst.
Seinni hálfleikinn hóf Snæfell betur en þann fyrri. Vörnin þeirra hélt aðeins betur, sem og náðu þær í nokkur skipti að keyra í bak Hauka og fá þannig auðveld sniðskot. Um miðjan hlutann er munurinn þó enn á svipuðum stað, eða í kringum 15 stig.
Um þetta leyti í leiknum meiðist stjörnuleikmaður Hauka, Helena Sverrisdóttir, á kálfa. Reyndar svo að hún lauk þar með þátttöku í leik kvöldsins. Óvíst er með hversu alvarleg meiðslin eru og hvort þau eigi eftir að takmarka þátttöku hennar í komandi leikjum.
Haukar klára hlutann þó með stæl án hennar, 51-38.
Fjórða hlutann hóf Snæfell betur. Söxuðu jafnt og þétt niður forskot Hauka. Þegar hlutinn er um það bil hálfnaður er munurinn kominn niður í aðeins 3 stig. Næst komst Snæfell stigi frá heimastúlkum. Það var þegar um 3 mínútur voru eftir. Þá vakti Pálína Gunnlaugsdóttir sínar stúlkur aftur með löngum þrist. Haukar komu með 8 stiga áhlaup á innan við mínútu þar á eftir.
Þeim mun héldu þær svo nánast til enda leiksins. Þegar 11 sekúndur voru eftir smellti Snæfell ótrúlegum þrist, stal boltanum aftur og þegar bjallan gall rataði annar niður frá þeim. Of lítið, of seint. Haukar fóru með 65-64 stiga sigur af hólmi.
Maður leiksins var leikmaður Hauka, Pálína Gunnlaugsdóttir, en meðfram því að skora nokkrar stórar körfur á lokakaflanum, spilaði hún einnig fantavörn á Haiden Denise Palmer allan leikinn. Pálína skoraði 16 stig, tók 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á þeim 38 mínútum sem hún spilaði.
Myndasafn #2 (Þorsteinn Eyþórsson)
Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur
Myndir / Axel Finnur & Þorsteinn Eyþórsson
Viðtöl: